„Þetta er nú kannski ekk­ert voðal­ega skemmti­legt, það er öll ferðaþjón­ust­an og allt í Vest­manna­eyj­um garg­andi á okk­ur. Það er í ljósi þess kannski sem við ákváðum að fara í ákveðna vinnu með þeim Herjólfs­mönn­um sem á að vera lokið eft­ir fjór­ar vik­ur, skoða ákveðna þætti og gefa þessu smá and­rými. Það var nú eig­in­lega málið.“

Þetta seg­ir Jón­as Garðars­son, formaður samn­inga­nefnd­ar Sjó­manna­fé­lags Íslands í samtali við mbl.is. Fé­lagið hef­ur af­lýst vinnu­stöðvun sem hefjast átti á miðnætti í kjöl­far þess að sam­komu­lag náðist um viðræðuáætlun.

Hljóðið í Jónasi er ekki sér­lega gott þó mjak­ast hafi í samn­ings­átt og vinnu­stöðvun hafi verið frestað. Um hefði verið að ræða þriðju vinnu­stöðvun und­ir­manna á Herjólfi og átti hún að standa í þrjá sól­ar­hringa, en í síðasta verk­falli greip Herjólf­ur til þess ráðs að sigla Herjólfi III á meðan á verk­falli stóð og sam­kvæmt til­kynn­ing­um frá Herjólfi stóð til að gera slíkt aft­ur. Jón­as seg­ir það ekki hafa haft áhrif á ákvörðun Sjó­manna­fé­lags Íslands.

Fundu til með ferðaþjón­ust­unni
„Það er kom­in hreyf­ing á þetta, en þetta er nú svo asna­legt. Það þurfti að boða vinnu­stöðvun til þess að fá Herjólfs­menn til að tala við okk­ur, þeir hafa bara neitað því fram að þessu. Þetta var al­veg ótrú­leg fram­koma af hendi út­gerðar­inn­ar,“ seg­ir Jón­as.

„Fólk verður að tala sam­an, en það var ekki í þessu til­felli fyrr en það var boðuð vinnu­stöðvun. Það er bara leiðin­legt að þurfa að standa í því. Svo bara fann ég, ég er bú­inn að vera mikið í Vest­manna­eyj­um, okk­ar fólk og samn­inga­nefnd­in, við fund­um til með ferðaþjón­ust­unni í Vest­manna­eyj­um og það var kannski það sem ýtti okk­ur út í þetta. Við lét­um und­an þrýst­ingi frá ferðaþjón­ust­unni í Eyj­um, til þess að gefa þessu smá and­rými yfir há­anna­tíma.“