Herjólfur sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem fram kemur að skipið siglir sjö ferðir á dag yfir verslunarmannahelgina dagana 30. júlí til 4. ágúst. Þetta er töluverð breyting á fyrri áætlun en samt sem áður sami fjöldi ferða milli lands og Eyja eftir að Þjóðhátíð var aflýst. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir átta ferðum á föstudeginum, fimm á laugardegi, fimm á sunnudegi og tíu ferðum á mánudegi.

Alma Ingólfsdóttir sölu- og verkefnastjóri hjá Herjólfi sagði í samtali við Eyjafréttir að töluverð hreyfing væri á bókunum þessa dagana en töluvert minna sé um afbókanir en gert var ráð fyrir. “Það er bæði er verið að færa bókanir til og einnig fólk að óska eftir endurgreiðslu. Eins og staðan er núna erum við að gera ráð fyrir svipaðri traffík og yfir Goslokahátíðina,” sagði Alma að lokum.