Þann 25.júní s.l hófst verkefnið „Út í sumarið 2020“ hjá Vestmannaeyjabæ með styrk frá félagsmálaráðuneytinu.

Verkefnið miðar að því að rjúfa félagslega einangrun og skerta samveru sem margir upplifðu í Covid 19 ástandinu enda margir eldri borgarar sem fóru í a.m.k sjálfskipaða sóttkví.
Markmiðið með verkefninu er m.a að auka lífsgæði og gleðja þátttakendur. Allir eldri borgarar í Vestmannaeyjum eru velkomnir að taka þátt þeim að kostnaðarlausu. Boðið er upp á akstur á viðburðina fyrir þá sem það þurfa en að jafnaði eru viðburðir kl. 14 á þriðjudögum og fimmtudögum.
Viðburðirnir eru auglýstir á sérstakri síðu verkefnisins á fasbókinni (facebook), á fasbók félags eldri borgara og á fasbók Vestmannaeyjabæjar. Þar eru aðstandendur þeirra eldri borgara sem ekki eru á netinu hvattir til að kynna verkefnið fyrir sínu fólki. Tengiliðir Vestmannaeyjabæjar við verkefnið eru Sólrún Gunnarsdóttir s. 488 2602/860 1030 ([email protected]) og Kolbrún Anna Rúnarsdóttir s. 488 2607 ([email protected]) og er hægt að fá nánari upplýsingar hjá þeim.

Það sem af er hefur verið farið í menningarferð í Eldheima til Kristínar Jóhannsdóttur, í útijóga á Skansinum með Helen Dögg, í rútu-og menningarferð með Viking tours þar sem Ívar Atla tók á móti hópnum, fræddi og sýndi nýju varmadælustöðina. Farið var í heimsókn til Gríms kokks þar sem hann tók vel á móti hópnum og kynnti framleiðsluna og fyrirtækið. Ekki var nú verra að hann bauð hópnum upp á smakk á því sem hann er að framleiða. Sagnheimar voru heimsóttir þar sem Ester Bergs tók nokkur lög í þjóðhátíðartjaldinu. Spilað var bingó í Kviku og í dag var samvera á Skansinum með léttum veitingum, gítarspili og sumarsöng frá Jarli Sigurgeirs.

Framundan eru fleiri viðburðir af gleði, skemmtun, söngatriðum, menningu og samveru. Einnig er tekið vel á móti hugmyndum af viðburðum.

Næsti viðburður er fimmtudaginn 23.júlí kl. 14 en þá ætlar Þórður Rafn Sigurðsson að bjóða eldri borgurum á Halkion bátinn hjá Rib safari fyrirtækinu. Þórður ætlar í um klukkutímasiglingu sem verður án efa hin besta skemmtun og veðurspáin er góð. Skrá þarf sig í þennan viðburð hjá tengiliðum verkefnis eða á þeim fasbókarsíðum sem að ofan greinir.