Leiðinleg sjón blasti við starfsmönnum á Golfvellinum í Vestmannaeyjum þegar þeir mættu til vinnu í morgunn. Unnin höfðu verið skemmdarverk á flöt 14. Holu vallarins. „Þetta eru djúp og ljót sár og á eftir að taka langan tíma að laga þetta,“ sagði Rúnar Gauti Gunnarsson vallarstarfsmaður í samtali við Eyjafréttir. Talið er að skemmdarverkið hafi verið unnið í nótt en kylfingar voru á vellinum fram eftir kvöldi. „Það var líka skilið eftir rennandi vatn þarna við flötina sem getur haft slæm áhrif á svæðið til langs tíma. Þarna var líklega að verki einhver á vespu eða litlu mótorhjóli. Skemmdin nær yfir fjóra til fimm fermetra á mjög viðkvæmu gríni. Það er mikil vinna að gera við þetta og verður líklega ekki orðið gott fyrr en næsta sumar,“ sagði Rúnar Gauti.

Hann segir þetta sérstaklega leiðinlegt í ljósi þess að völlurinn hefur verið í algeru topp ásigkomulagi og aðsókn á völlinn líklega aldrei verið meiri. „Sárið er þannig staðsett að þar hefur mikil áhrif á notkun flatarinnar og tekur stóran hluta hennar alveg úr umferð.“

Rúnar Gauti biður alla þá sem veitt geta einhverjar upplýsingar um þá sem þarna voru að verki að láta lögregluna í Vestmannaeyjum vita af því. Fjórtánda flöt er staðsett syðst á vellinum við Ofanleitishamar.