VSV-humar fyrirsæta í kennsluefni

frá vinstri: feðgarnir Hörður Sævaldsson og Sævaldur Örn Harðarson, Marta Möller verkstjóri og Sverrir Haraldsson sviðsstjóri hjá VSV.

„Ég er mættur hingað til að safna myndum í kennsluefni fyrir framhaldsskólanema. Margsannað mál er að góðar myndir segja meira en mörg orð og það á afar vel við hér,“ sagði Hörður Sævaldsson, lektor í auðlindadeild Háskólans á Akureyri, á dögunum þegar hann leit inn í humarvinnslu VSV og „skaut“ í allar áttir þar sem myndefni var að finna. Þann daginn var því sérlega mikil hefð fólgin í því að vera humar í kari eða á færibandi í Eyjum snurfusaður og ljósmyndaður á leið í frost og fínar öskjur.

Hörður var á ferð með syni sínum, Sævaldi Erni. Sjávarútvegsfræðingurinn Hörður og kollegi hans í Háskólanum á Akureyri, Hreiðar Þór Valtýsson lektor, vinna að átta bóka röð sem ber heitið Íslenskur sjávarútvegur – auðlind úr hafinu á alþjóðamarkaði. Þetta er samstarfsverkefni þeirra og Rannsóknarsjóðs sjávarútvegsins, ætlað framhaldsskólanemum.

Verkefnið er spennandi og umfangsmikið. Hörður og Hreiðar Þór eru enda fjölfróðir um atvinnugreinina og hafa af miklu að miðla. Sá fyrrnefndi er með stjórnkerfi fiskveiða og markaði sjávarafurða sem sérsvið en sá síðarnefndi fiskifræði og sjávarlíffræði. Einmitt núna vinnur Hörður að því að skrifa um fiskveiðistjórnarkerfið.

JEEP- rafknúinn 02
Jeep – rafknúinn

 

Græðlingar HA hér og þar í atvinnugreininni
Útskrifaða nemendur frá auðlindadeild Háskólans á Akureyri er að finna í sjávarútvegsfyrirtækjum víðs vegar um landið og nærtækt er auðvitað að nefna Vinnslustöðina. Þar skal fyrsta fræga telja Sverri Haraldsson, sviðsstjóra botnsviðssviðs, og Sindra Viðarsson, sviðsstjóra uppsjávarsviðs. Þá eru eru tveir starfsmenn VSV núna við nám í Háskólanum á Akureyri og útskrifast innan tíðar, Dagur Arnarson og Hallgrímur Þórðarson. Þeir vinna í makrílnum í VSV í sumar hafa áður unnið annars vegar á netaverkstæðinu en hins vegar í Hafnareyri.

Síðast en ekki síst skal nefnd til sögunnar knattspyrnugoðsögn Eyjamanna, Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Hann var í fyrsta nemendahópnum sem brautskráðist eftir nám í haftengdri nýsköpun haustið 2017, samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík. Markmiðið var að þjálfa nemendur í að nýta þekkingu í viðskipta- og sjávarútvegsfræðum til að vinna að raunhæfum verkefnum.

Gunnar Heiðar vann þar að verkefni um karfasölu Vinnslustöðvarinnar til Þýskalands. Hann fetar ótrauður frumkvöðlabrautina og er drifkraftur merkilegs þróunarverkefnis sem varðar framleiðslu og sölu hágæðasnakks úr hvítfisknum keilu. Fyrirtæki sem hann og fjölskylda hans eiga að stærstum hluta. Volcano Seafood er að stíga fyrstu skrefin með áhugaverðar vörur sínar á markaði í samstarfi við Leo Seafood ehf. í Vestmannaeyjum.

Samtímis þessu vinnur Gunnar Heiðar að öðru áhugaverðu vöruþróunarverkefni í sjávarútvegi, í samstarfi við Vinnslustöðina. Meira um það síðar.

 

 

Mest lesið