Þjóðhátíð er einstök upplifun!

Íris Róbertsdóttir skrifar

Í ár eru 146 ár síðan fyrsta Þjóðhátíðin okkar var haldin. Því er það mjög sérstök tilfinning að henni hafi verið aflýst í ár, en það gerðist síðast þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst. Þetta er sem sagt í fyrsta sinn í 105 ár sem Þjóðhátíð fellur niður; og í fyrsta og vonandi síðasta skiptið sem það gerist í tíð okkar sem nú lifum.

Ég veit að við virðum öll og skiljum þessa ákvörðun og þau sjónarmið sem að baki henni búa.

En einmitt þetta – þessi langa saga og hefð og þessi órofa tenging við fortíð okkar og þá sem á undan fóru hér í Eyjum – leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Við þurfum að hlúa að þessari miklu menningarperlu sem Þjóðhátíðin er. Virða sögu hennar og hefðir; halda í allt það sem gerir Þjóðhátíðina sérstaka og einstaka: hvítu tjöldin, brennuna, bjargsigið, blysin og Brekkusöngin – og margt fleira sem er okkur svo kært. Það er allt þetta sem gerir þessa hátíð að einstakri uppliflun.

Það erum við sjálf sem búum til minningarnar sem fylgja okkur svo áfram á „lífstíðarskútunni“ eins og eitt óskabarn Þjóðhátíðarinnar, Ási í Bæ, kallaði það. Í ár búum við Eyjafólk til öðruvísi „Þjóðhátíðar“minningar

Þetta sumar er og verður ólíkt öllum öðrum sumrum sem við höfum þekkt. Við erum í heimsfaraldri, sem stýrir miklu í okkar lífi í dag, og samkomutakmörkunum sem honum fylgja. Við verðum að hlýða þeim reglum sem gilda og gæta að eigin sóttvörnum. Í þessari viku getum við látið okkur hlakka til næstu Þjóðhátíðar og næsta sumars sem þá verður orðin aftur sá gleðitími sem Vestmannaeyingar og landsmenn allir hlakka til og njóta.

Þangað til getum við yljað okkur við minningar frá fyrri hátíðum og hlustað á, og sungið, þau fjölmörgu frábæru Þjóðhátíðarlög sem til eru og við þekkjum svo vel. Og það gladdi mig mikið Þjóðhátíðarnefnd skyldi halda í þá hefð í ár að gefa út nýtt Þjóðhátíðarlag, frábært lag sem kallar fram bros og góðar minningar úr Dalnum.

Við heimafólk getum síðan gert margt sem tengir okkur við hátíðina þessa helgina; eins og setningarkaffi og samvera með fjölskyldu og vinum. Við höldum okkar útgáfu af Þjóðhátíð þótt sú hefðbundna falli niður að þessu sinni. Eigið góða Þjóðhátíðarhelgi; þetta verður allt öðruvísi í ár en það verður samt gaman!

Við sjáumst svo hress í Herjólfsdal að ári, þar sem hjartað slær!

„Því vil ég segja, takk fyrir mig.“

Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri

Jólablað Fylkis

Mest lesið