Anna Heiða Ólafsdóttir var leiðangursstjóri í uppsjávarleiðangri á hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni þar sem togað var fyrir makríl, gerðar bergmálsmælingar á kolmunna og síld, miðsjávarlífríkið kannað og ástand sjávar mælt.

Uppsjávarleiðangri Hafrannsóknastofnunar þetta sumarið lauk í síðustu viku. Auk Íslendinganna á Árna Friðrikssyni tóku fimm önnur skip þátt í leiðangrinum, frá Noregi, Danmörku, Færeyjum og Grænlandi.

Í tilkynningu frá Hafró segir að bráðabirgðaniðurstöður sýni „að magn makríls í íslenskri landhelgi er mun minna en verið hefur undanfarin ár. Eins mældist minna af kolmunna í ár samanborið við fyrri ár meðan að magn síldar er álíka og undanfarin ár.“

Norska Hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, hefur greint frá því að makríllinn hafi einkum fundist, og í töluverðu magni, í Noregshafi, allt norður undir Jan Mayen.

Þetta eru óneitanlega vonbrigði fyrir íslenska flotann sem í meira en áratug hefur geta treyst nokkuð vel á makrílinn. Þetta árið hefur hann lítið látið sjá sig í landhelginni, uppsjávarskipin hafa sótt hann í Smuguna og smábátarnir í óvissu hér nær landi.

„Mælingarnar okkar stemma við það sem stóru fiskiskipin eru að segja. Þau eru ekkert að finna hann, og smáu bátarnir ekki heldur. Þetta er allt að segja sömu söguna,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir fiskifræðingur, sem var leiðangursstjóri.

Hún segir ólíklegt að makríllinn eigi eftir að láta sjá sig mikið úr þessu.

„Maður getur samt alltaf miðað bara við reynslu fyrri ára, en svo kemur auðvitað fyrir stundum að hlutirnir breytast. En maður er ekki með nein rök eða þekkingu sem segir manni að þetta sé líklegt til að breytast. Þetta lítur illa út fyrir ágúst, því miður.“

Enn er þó ekkert farið að vinna frekar úr niðurstöðunum. Það verður ekki gert fyrr en upp úr miðjum mánuðinum þegar leiðangursfólk allra skipanna hittast til að bera saman bækur sínar.

„Svo skýrslan kemur út í lok ágúst,“ segir Anna Heiða.

Skiptu við Grænlendinga
Leiðangurinn stóð yfir í 30 daga, allan júlímánuð.

„Við komum á fimmtudagskvöldið fyrir verslunarmannahelgi,“ segir Anna Heiða. „Þetta er sami leiðangurinn og alltaf, fórum hringinn í kringum landið.“

Leiðin sem Árni Friðriksson sigldi var þó frábrugðin því sem verið hefur, því að þessu sinni var siglt suður fyrir Grænland en í staðinn tóku Grænlendingar að sér að fara yfir svæðið vestur af Íslandi.

„Við báðum þá um að skipta við okkur á svæðum af því okkur langaði að taka sýni fyrir þessi miðsjávarverkefni í Grænlandshafinu til að nýta leiðangurinn, þeir voru svo almennilegir við okkur að gera það,“ segir hún.

„Það eru ákveðnir staðir sem við toguðum fyrir makríl, svo mælum við með bergmáli kolmunna og síld. Einnig tökum við átusýni og mældum líka ástand sjávar, en þá tökum við hita- og seltumælingar og gerum frumframleiðnimælingar. Þetta er allt gert á sömu stöðum og makríltogin eru.“

Spurð hvort eitthvað hafi komið sérstaklega á óvart nefnir hún fyrst að veðrið hafi verið óvenju leiðinlegt í þessum leiðangri.

„Það var hundleiðinlegt við okkur, við bara eltum uppi lægðirnar fyrir sunnan.“

Miðsjórinn kannaður
Nýjung í þessum leiðangri var að sýnum var safnað fyrir tvö miðsjávarverkefni.

„Það var gert bæði í Íslandsdjúpi og svo Grænlandshafi. Við vorum með sérstakt átutroll, sem er með mjög fína möskva, hannað til að ná litlu fiskunum, það er bæði miðsjávarfiskunum og marflónum og ljósátunum og smokkfiskunum. Svo vorum við líka með svokallaða svifsjá, lítið tæki sem er sett niður og tekur myndir af rauðátunni sem er í sjónum. Myndirnar eru notaðar til að telja hvað er mikið af átu í sjónum, en það er miklu fljótari úrvinnsla að taka myndir af þessu en að taka og telja þetta undir smásjá.“

Hafrannsóknastofnun er aðeins ein af um 20 stofnunum sem taka þátt í þessum miðsjávarrannsóknum, sem eru styrkt af Evrópusambandinu og skila ekki niðurstöðum fyrr en eftir nokkur ár.

„Þetta er bara upphafið að þessum verkefnum,“ segir Anna Heiða.

Fiskifréttir greindi frá