Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja, sl. þriðjudag, lág fyrir beiðni um heimild til handa Herjólfi ohf til að sérmerkja þrjú bílastæði á Básaskersbryggju þar sem setja á upp rafhleðslubúnað fyrir rafbíla. Jafnframt er óskað eftir því að komast í rafmagn þar sem settur verður upp sér gjaldmælir.

„Óskað er eftir að þessi staðsetning verði norðan til og fyrir miðju á Básaskersbryggju, við mastrið. Tvö bílastæðanna verði austan við „kassann“ en eitt norðan við „kassann“ sem mastrið stendur á.
Settar verða upp þrjár hleðslustöðvar sem festast á eða við vegginn í lokuðu rými til að verja þær fyrir veðri,“ segir í beiðninni frá Herjólfi ohf.

Ráðið samþykkti erindið og fól starfsmönnum framgang málsins.

Með þessu fjölgar heldur betur þeim hleðslustöðvum sem almenningur hefur aðgang að, sem er vel þar sem hreinum rafbílum fjölgar ört á landinu.
Fyrir er hleðslustöð gengt Hótel Vestmannaeyjar og svo bíður Tölvun upp á fría hleðslu við Hvíta húsið.