Eftir að hafa náð 4933 íbúum með lögheimili í Vestmannaeyjum 1. janúar 1991, sem er það mesta eftir gos ( 1971 var 5231 íbúi ), fækkaði íbúum Eyjanna jafnt og þétt alveg til ársins 2008 og voru þá 4055. Síðan þá hefur þróunin snúist við og íbúum smá saman fjölgað og um síðustu áramót voru 4355 íbúar skráðir með lögheimili í Vestmannaeyjum.
Samhliða þessu hefur fjöldi barna (á aldrinum 0-4 ára) fylgt algjörlega íbúaþróuninni eða þar til árið 2013. Þar virðast leiðir skilja. Síðan þá hefur börnum í Eyjum fækkað jafnhratt og íbúum hefur fjölgað.

Ef við berum saman fjölda barna á fyrsta ári síðustu 20 árin eða svo má sjá gríðarlega fækkun. Þann 1. janúar árið 1998 voru börn á fyrsta ári með lögheimili í Eyjum 97, þeim fækkaði svo niður í 70 árið 2000 en um síðustu áramót voru þau eingöngu 33. Sem þýðir 66% fækkun frá árinu 1998. Á sama tíma hefur íbúum Eyjanna aðeins fækkað um 6%. Á sama tíma hefur börnum á fyrsta ári fjölgað um 7% á landsvísu og íbúum alls um 33%.

Samanburður á þróun fjölda barna á aldrinum 0 til 4 ára við fjölda íbúa í Eyjum sýnir glögglega breytingu á samfylgd í kringum 2013 en það er árið sem skurðstofunni í Eyjum var lokað.

Eins og sjá má á grafinu hér að ofan fylgdist þó fjöldi íbúa og barna að til ársins 2013.
En hvað gerðist? Af hverju eru Eyjamenn hættir að eignast börn?

Tvö börn fædd í Eyjum
Ef við skoðum fréttaflutning ársins 2013 þá er eitt mál sérstaklega áberandi, skurðstofan í Vestmannaeyjum. Skurðstofan var lokuð stóran part ársins 2013, vegna sumarleyfa og mönnunar vandræða. Henni var svo endanlega lokað frá og með 1. október það ár. Þaðan í frá heyrðu því fæðingar í Vestmannaeyjum nánast sögunni til og fæddust til að mynda aðeins tvö börn í Eyjum á síðasta ári.
Ekki er hægt að fullyrða að bein tengsl séu þarna á milli, þ.e. fjölda barna í Eyjum og lokunar skurðstofunnar en samanburðarmyndin hér að ofan gefur svo sannarlega ástæðu til að spyrja þeirrar spurningar.

Nánar má lesa um málið í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.