Íbúar ósáttir við gula kantinn – vilja einstefnu

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja síðastliðinn mánudag lögðu íbúar við Heimagötu fram undirskriftalista þar sem þeir óska eftir að Heimagatan verði gerð að einstefnugötu. „Og þá upp götuna svo íbúar geti lagt bifreiðum sínum við heimili sín. Mikil óánægja hefur skapast eftir að gulur kantur var málaður beggja megin Heimagötu sem bann við lagningu ökutækja og um leið kom í veg fyrir að hægt yrði að leggja bifreiðum ábúenda við heimili sín,” segir í inngangi undirskriftalistans. Þá segir ennfremur að engin kynning né viðvörun hafi verið send til íbúa Heimagötu. Þá segir ennfremur: “Eftir að kantarnir voru málaðir gulir hefur umferð og hraði bifreiða aukist töluvert og mikið ónæði skapast í kjölfarið langt fram á nótt.”

“Okkur hefur verið sagt að leggja við Ásgarð eða hjá KFUM og K húsinu og svo á bak við hús AA-samtakanna. Þar innanhús ríkir ekki ánægja með að aðrir bílar en þeir sem eiga þangað erindi noti þau stæði,” sagði Kolbrún Harpa íbúi við Heimagötu í samtali við Eyjafréttir. “Við viljum endurheimta bílastæðin við heimili okkar á Heimagötunni og að gatan verði ferð að einstefnugötu,” sagði Kolbrún Harpa og bætti við. “Vissulega voru mikil þrengsli áður við götuna enda ekki skrýtið þegar leyfð er umferð í báðar áttir og ákveðin slysahætta vegna þessa. En að fara svona aftan að íbúum götunnar er fyrir neðan allar hellur. Einstefna skal það vera og þá verða allir kátir og glaðir og fá aftur að leggja við heimili sitt.”

Umhverfis- og skipulagsráð frestaði erinidinu og óskar eftir áliti umferðarhóps.