Á föstudag fór fram minningarmótið Úlli Open 2020, en það er haldið til minningar um Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, Úlla pípara, sem bjó um langt árabil hér í Eyjum.  Hann var fæddur á Siglufirði þann 05.apríl 1958 bjó þar fyrstu árin með fjölskyldu sinni en dreif sig út í Eyjar á unglingsárum og vann hér bæði á sjó og í landi, lengst af hjá Huginsfólkinu og í Miðstöðinni hjá Didda heitnum og Mara píparara.  Hann flutti svo til Grindavíkur og bjó þar og starfaði þar til hann lést þann 22.september á síðasta ári.

Kristín Valtýsdóttir, fyrir hönd Krabbavarnar, tekur á móti styrknum sem safnaðisst í kringum mótið. Samtals kr. 327.000. Það voru síðan Kristín Gísladóttir, ekkja Úlla og börn hans, Eva Rut, Þorfinnur og Gunný sem afhentu hann.

Úlli var mikill Eyjamaður, enda kynnti hann sig sem Úlla, Eyjamann, fæddan á Siglufirði en búandi og starfandi í Grindavík.  Hann var mikill Þjóðhátíðarmaður og lagði mikið upp úr að tjaldið hans og hans fólks væri glæsilegt og vel búið í alla staði.  Hann spilaði golf með vinum sínum og fór í ófáar golfferðirnar.  Hann ætlaði að halda golfmót í Grindavík á síðasta ári en heilsan hreinlega leyfði það ekki og hann tók loforð af vinum sínum að halda golfmótið, þótt síðar væri.  Það var síðan ákveðið strax í kjölfar fráfalls hans að halda minningarmót og gera það að árlegum viðburði, til þess að halda minningu yndislega Úlla á lofti og styrkja um leið félagasamtök í hans nafni.

Ættingjar og vinir vilja þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning þessa móts kærlega fyrir.  Lagnaþjónusta Suðurnesja sem Úlli stofnaði ásamt Rúnari Helgasyni kom myndarlega að mótinu með fjárstyrk, en Þorfinnur sonur Úlla er nú meðeigandi Rúnars að Lagnaþjónustunni.  Allir þátttakendur greiddu að sjálfsögðu myndarlegt mótsgjald og vinningar komu frá Bláa lóninu, Harbour view, Northern light Inn, Golfklúbbum Grindavíkur og Vestmannaeyja, Miðstöðinni, Skipalyftunni, Geisla, Byko, 4×4 adventures, Papas pizza, Hafinu, Esju, Sælkeradreifingu og Stóra sviðinu og að auki gaf Jóhannes Barkarson, frændi Úlla, glæsilegan farandbikar.

Sigurvegarinn, Bjarki Guðmundsson, ásamt Stínu, ekkju Úlla og börnunum Evu Rut, Þorfinni og Gunný.

Glæsilegu móti lauk með sigri Bjarka Guðmundssonar frá Grindavík, þannig að farandbikarinn verður fyrsta árið varðveittur í Grindavík.  Í verðlaunaafhendingunni afhentu síðan Kristín Gísladóttir, ekkja Úlla og börn hans, Eva Rut, Þorfinnur og Gunný, Kristínu Valtýsdóttur frá Krabbavörn í Vestmannaeyjum, allt það sem safnaðist í kringum mótið, eða 327.000,- krónur.  Þakkaði hún fyrir þennan styrk með fallegum og vel völdum orðum.

Enn og aftur vilja aðstandendur mótsins þakka stuðninginn og minna á að mótið verður haldið aftur á næsta ári og stefnan er að gera enn betur þá J.

Úrslit mótsins:
Karlar:
1. Bjarki Guðmundsson
2. Kristófer Helgi Helgason
3. Bjarni Ólafur Guðmundsson

Konur:
1. Guðrún Mary Ólafsdóttir
2. Kristín Gísladóttir
3. Gunný Gunnlaugsdóttir