Embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum var auglýst laust til umsóknar á vef stjórnarráðsins í gær. Þar kemur fram að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum fer með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi. Hann annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.

Umsækjendur skulu fullnægja skilyrðum 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Aðrar hæfniskröfur eru:
• Góð þekking og yfirsýn á verkefnum lögreglunnar æskileg
• Góð þekking og/eða reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar æskileg
• Rekstrarþekking og/eða reynsla er æskileg
• Reynsla af stjórnun og stefnumótun æskileg
• Mjög góð forystu-, samvinnu- og samskiptahæfni
• Fagmennska, frumkvæði, drifkraftur og jákvæðni
• Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti
• Þekking á einu Norðurlandamáli æskileg

Dómsmálaráðherra skipar lögreglustjóra til 5 ára í senn, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 1. nóvember 2020. Um laun og starfskjör lögreglustjóra fer eftir ákvörðun kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Umsóknarfrestur er til og með 14. september 2020. Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að fela nefnd að fara yfir þær umsóknir sem berast og á nefndin að skila ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda.