Óleyst mál varðandi háar greiðslur frá ríkinu
Strax eftir síðustu kosningar lá mikið á hjá H-listanum að skipta út þáverandi formanni og varaformanni stjórnar Herjólfs ohf. sem var þá út í miðri á, að ná samkomulagi við ríkið um greiðslur vegna svokallaðrar öryggismönnunar skipsins, ferjuvísitölu og notkunar á gamla Herjólfi þann tíma sem nýja ferjan átti að vera farinn að sigla og það á rafmagni sem kom svo ekki fyrr en löngu síðar.

Fjárhæðir hlaupa á hundruðum milljóna
Stórar fjárhæðir upp á hundruðir milljóna sem snúa að uppgjöri á þessum hlutum hafa ekki enn skilað sér og eru óuppgerð af hálfu ríkisins. Það að ríkið sé enn að greiða með 9 mönnum í áhöfn en ekki 11 sýnir að málið er enn óklárað eftir allan þennan tíma, mál þar sem lending var í sjónmáli þegar mikilvægri þekkingu var skipt út úr stjórninni.

Pólitískir hagsmunir fengu að ráða
Líkt og undirrituð bentu á og óttuðust þá voru pólitískir hagsmunir teknir framyfir hag verkefnisins þegar Grími Gíslasyni og Lúðvíki Bergvinssyni var skipt út á viðkvæmum tímapunkti, án fyrirvara og án þess að tala við þá hvorki fyrir né eftir breytingar. Það lá svo mikið á hjá H-listanum að það gleymdist að fara eftir reglum við skipun stjórnar, líkt og ítrekað var bent á á sínum tíma.

Staða félagsins afar viðkvæm
Vegna aðstæðna í samfélaginu og ófyrirséðra rekstrarerfiðleika vegna afleiðinga af heimsfaraldri liggur nú mikið undir og er afar brýnt að þessi atriði sem snúa að ríkinu séu kláruð sem allra fyrst og að allri óvissu um samninginn sé eytt svo að hægt sé að skipuleggja framtíðina sem er klárlega björt ef rétt er haldið á málum. Á næstunni verður mikilvægt að tryggja að það þjónustustig sem fékkst með yfirtöku á rekstri Herjólfs haldist og haldi áfram að verða meira og betra.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum