Alvarleg stað Herjólfs ohf. hefur verið til umræðu undanfarið vegna mikils tekjufalls í kjölfar Covid-19. Einnig er það ljóst að ríkið hefur ekki verið að greiða samkvæmt þjónustusamningi vegna öryggismönnunar og fleiri þátta. Þeim kröfum er haldið fast að ríkinu. Staðan er sú að í heildina vantar um 400 milljónir inn í rekstur Herjólfs ohf. miðað við áætlanir. Þar af er krafa á ríkið uppá 200 milljónir og 200 milljónir vantar vegna samdráttar í sértekjum félagsins vegna færri farþega og bíla.

Þetta vita bæjarfulltrúar minnihlutans mætavel en freista þess samt að gera þennan sameiginlega vanda okkar Eyjamanna að flokkspólitísku bitbeini. Þar fyrir utan er grein, sem minnihlutinn birti um málið á netmiðlum bæjarins í gær, uppfull af rangfærslum og staðreyndavillum.

Rangfærslur
Þar er því m.a. haldið fram að fyrrverandi stjórnarmenn Herjólfs hafi verið  „…út í miðri á að ná samkomulagi við ríkið um greiðslur vegna svokallaðrar öryggismönnunar skipsins…“. Vegagerðin hefur staðfest að engar slíkar samningaviðræður voru á loka metrunum við fyrrverandi stjórn. Það er reyndar augljóst því ákvörðun Samgöngustofu um öryggismönnum var ekki tekin fyrr en í desember; rúmu hálfu ári EFTIR að fyrrverandi stjórn lét af störfum.

Eitthvað eru svo tölurnar um þessa öryggismönnun að þvælast fyrir greinarhöfundum minnihlutans. Hvaðan kemur þessi tala 11 í öryggismönnun? Stjórn Herjólfs ohf. hefur sótt fast að ríkið greiði með 12 manna áhöfn yfir veturinn og 13-14 á sumrin.

Samstaða rofin
Þessar staðreyndavillur í grein minnihlutans eru þó raunar aukaatriði. Alvarlegast er að minnihlutinn er með þessari grein að reyna að rjúfa þá samstöðu sem þarf að ríkja meðal bæjarbúa allra til að árangur náist í þessu brýna hagsmunamáli okkar gagnvart ríkinu. Sú samstaða er fyrir hendi í núverandi stjórn Herjólfs, bæði meðal fulltrúa meirihluta og minnihluta. Það er óskiljanlegt af hverju bæjarfulltrúar D-listans bera ekki meira traust til þeirra fulltrúa sem þeir sjálfir skipuðu í stjórnina en raun ber vitni. Undirrituð bera traust til allra stjórnamanna. Ef þeir sem viku úr stjórninni voru svona miklu hæfari af hverju skipaði D-listinn þá ekki til áframhaldandi setu? Það hefði verið þeim í lófa lagið.

Það væri óskandi að öll bæjarstjórnin gæti sameinast um að koma þessu brýna hagsmunamáli okkar Eyjamanna heilu í höfn. Í erindisleysi sínu í bæjarpólitíkinni stenst minnihlutinn hins vegar ekki þá freistingu að reyna að nýta sér grafalvarlega stöðu Herjólfs ohf. til að skora flokkspólitísk stig.

Það er ljótur leikur með hagsmuni Eyjamanna.

Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri