“Það er eiginlega sturluð staðreynd, að eitt fallegasta og umhverfisvænasta bæjarfélagið á Íslandi skuli ekki vera á kortum Google kerfanna, nema að mjög takmörkuðu leiti,” sagði Davíð Guðmundsson áhugamaður um stafræna kortlagningu Vestmannaeyja  í samtali við Eyjafréttir fyrr í vetur.

Forsagan
Það var í júlí árið 2013 þegar von var á Google til Íslands til myndatöku og kortlagningu vegakerfisins, með svokölluðu StreetView. “Þá sendi ég bæjaryfirvöldum áminningu um að fá þá til Eyja og senda sérstaka beiðni þar um, en ekkert varð af því og þar með keyrðu þeir framhjá Landeyjarhafnar-afleggjaranum og keyrðu hringinn og inn á nánast hvert einasta krummaskuð landsins. Þá var vegakerfið myndað í þrívídd, ásamt götum bæjarfélaga og áhugaverðra staða. Nú 6 árum síðar hefur ekkert gerst, hér í Eyjum, á meðan að frændur okkar Færeyingar eru með hvern krók og kima skannaðan og m.a.s. er búið að koma myndavél á nokkrar kindur til að mynda fjalllendið þeirra.”

Tók málin í eigin hendur
Davíð tók þá málin í eigin hendur fékk til þess styrk úr viltu hafa áhrif verkefninu og ekur þessa dagana um Heimaey og tekur upp þrívíddarmyndir sem hægt verður að skoða á miðlum Google. “Við munum þræða allar götur og vegaslóða á eyjunni og koma þeim myndum á netið. Persónuverndin er í hávegum höfð, þannig að öll andlit og bílnúmer verða sjálfkrafa “blörruð”. Í framhaldinu munum við taka gönguslóða, fjöllin og úteyjarnar.”