Vísitala lífmassa makríls var metinn 12,3 milljónir tonna sem er 7% hækkun frá árinu 2019 og er mesti lífmassi sem mælst hefur frá upphafi leiðangursins árið 2007. Mestur þéttleiki mældist í miðju- og norðanverðu Noregshafi (mynd 1). Á hafsvæðinu við Ísland mældist 72% minna af makríl en 2019. Mestur var þéttleikinn suðaustan við landið, ólíkt undanförnum árum þegar mestur þéttleiki mældist sunnan og vestan við landið.

Mynd 1. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júlí 20…Mynd 1. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júlí 2020. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur til rauður litakvarðinn táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra.

Magn norsk-íslenskrar síldar hækkaði einnig og var vísitala lífmassa metin 5,9 milljónir tonna sem er 24% hækkun frá árinu 2019. Þessi auking skýrist af stórum 2016 árgangi sem er að öllum líkindum að stærstu leyti genginn nú úr Barentshafi inn í Noregshaf. Þessi árgangur ásamt þeim frá 2013, vógu um 55% af lífmassa stofnsins. Útbreiðsla síldarstofnsins var svipuð og undanfarin ár. Eldri hluti hans var í mestum þéttleika norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Íslands, en yngri síldin í norðaustur Noregshafi (mynd 2).

Mynd 2. Útbreiðsla og magn norsk-íslenskrar síldar í júlí 2020 samkvæmt bergmálsgildum á fersjómílu (NASC) sýnd sem línur hornréttar frá leiðarlínum.

Fimmta árið í röð var lögð áhersla á að ná yfir allt útbreiðslusvæði kolmunna og að meta stærð stofnsins. Vísitala stofnstærðar var 1,8 milljónir tonna sem er 11% lækkun frá 2019. Kolmunni fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó við Austur-Grænland og í Austur Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen, og fyrir vestan og sunnan Ísland (mynd 3). Við Ísland mældist mest af kolmunna suðaustan og austan við landið og ólíkt fyrri árum varð ekki vart við kolmunna við landgrunnsbrúnina sunnan við landið.

Mynd 3. Útbreiðsla og magn kolmunna í júlí 2020 samkvæmt samkvæmt bergmálsgildum á fersjómílu (NASC) sýnd sem línur hornréttar frá leiðarlínum.

 

Austan, sunnan og vestan Íslands, sem og í Irmingerhafinu við Austur Grænland var hitastig í yfirborðslögum sjávar ívið lægra nú en á sama tíma í fyrra, en kringum meðaltal síðustu 20 ára. Í meginhluta af Noregshafi var yfirborðshiti um og yfir meðaltali síðustu 20 ára sem þýðir lækkun í vestari hlutanum en hækkun í austari hlutanum í samanburði við síðasta ár.

Vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu við Ísland minnkaði um 15% samanborðið við fyrir ár og 45% minnkun var við Grænland meðan magnið var álíka í Noregshafi.

Niðurstöður leiðangursins voru kynntar innan stofnmats vinnunefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í gær. Niðurstöðurnar eru, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark Norsk-íslenskrar síldar, makríls og kolmunna þann 30. september.

Skýrslu um niðurstöður leiðangursins má nálgast hér.