Rétt í þessu lauk starfsmannafundi hjá Herjólfi ohf. Samkvæmt heimildum Eyjafrétta var þar tilkynnt um uppsögn allra starfsmanna félagsins. Þar kom einnig fram að allir starfsmenn hafa þriggja mánaðar uppsagnarfrest og verður þjónusta skipsins því óskert til 1. desember næstkomandi. Von er á tilkynningu frá félaginu um málið. Ekki náðist í Guðbjart Ellert Jónsson framkvæmdastjóra Herjólfs við vinnslu fréttarinnar.

Bæjarráð fjallaði fyrr í þessum mánuði um erfiða fjárhagsstöðu Herjólfs

uppfært 15:34
Stjórn Herjólfs sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að aðgerðin sé gerð í varúðarskyni þar sem stjórnin telur óábyrgt að halda út í frekari óvissu með rekstur félagsins að öllu óbreyttu. Áhrif kórónaveirunnar og að ekki hafi verið staðið fyllilega við gerðan þjónustusamning vegna siglinga eru nefndar ástæður uppsagnanna.

tilkynninguna í heild má lesa hér að neðan. 

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. hóf þann 20. ágúst s.l. ferli að hópuppsögnum allra starfsmanna félagsins í samræmi við lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 án þess að endanleg niðurstaða hafi legið fyrir. Stjórn félagsins hefur nú tekið þá sársaukafullu ákvörðun að segja upp öllum starfsmönnum. Er það gert í varúðarskyni þar sem stjórnin telur óábyrgt að halda út í frekari óvissu með rekstur félagsins að öllu óbreyttu.    

Áætluð áhrif vegna kórónaveirunnar eru veruleg og ekki liggur fyrir niðurstaða eða ákvörðun ríkisins um að bæta í núverandi þjónustusamning vegna áhrifa á reksturinn.  

Einnig telur stjórn félagsins að ekki hafi verið staðið fyllilega við gerðan þjónustusamning vegna ferjusiglinga milli lands og Eyja. 

Vinna við endurskoðun á frekari fjárframlögum og á rekstri félagsins er í gangi þó engin niðurstaða liggi fyrir. Þeirri vinnu verður hraðað eins og kostur er.”