Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti fyrir helgi skýrslu starfshóps um áhrif Covid-19 á fjármál sveitarfélaga. Starfshópurinn áætlar að verulegur samdráttur verði í tekjum flestra sveitarfélaga miðað við áætlanir og að neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu þeirra nemi alls rúmlega 33 milljörðum króna.

Í niðurstöðum starfshópsins segir að gera megi ráð fyrir að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra verði 26,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum ársins 2020. Þá megi búast við að auknar fjárfestingar sveitarfélaga nemi rúmlega 6,5 milljöðrum króna. Samanlagt væru áhrifin því rúmlega 33 milljarðar króna eða rúmlega 91 þúsund króna á hvern íbúa.

Í skýrslunni segir að til að setja þessar tölur í samhengi hafi heildarútgjöld sveitarfélaganna árið 2019 verið rúmlega 390 milljarðar króna. Áhrifin nemi því 8,5% af heildarútgjöldum sveitarfélaga frá árinu 2019 eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu sama ár. Hér væru því um verulegar upphæðir að ræða í þjóðhagslegu tilliti.

Áhrif á útsvarstekjur
Starfshópurinn áætlar að útsvarstekjur sveitarfélaganna, stærsti einstaki tekjustofn þeirra, muni dragast verulega saman. Sveitarfélögin hafi gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum sínum að útsvarstekjur ársins myndu nema rúmlega 223 milljörðum króna en samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir má ætla að útsvarstekjurnar verði nokkuð minni eða um 212 milljarðar króna.

Ólíkt svigrúm sveitarfélaga
„Skýrslan dregur vel fram áætluð áhrif efnahagsþróunarinnar í kjölfar Covid-19 faraldursins á fjármál sveitarfélaga og skapar traustan grundvöll fyrir frekari umræður um fjárhagsleg málefni sveitarfélaganna á þessum óvissutímum. Ljóst er að staða þeirra er afar misjöfn, mörg hver hafa t.d. rúmt svigrúm til að takast á við þessar tímabundnu þrengingar meðan önnur eiga erfiðara um vik, m.a. vegna skuldastöðu og íbúaþróunar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Um starfshópinn
Ríkisstjórnin fór þess á leit við samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga í lok apríl sl. að setja á fót starfshóp til að meta fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Verkefnið var tvíþætt. Annars vegar að safna upplýsingum um fjárhagsáætlanir og fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga fyrir yfirstandandi ár, þróun þeirra og horfur og hins vegar að safna upplýsingum um einstaka þætti sem ljóst þykir að muni hafa mikil áhrif á afkomu sveitarfélaga á komandi mánuðum og misserum.

Formaður starfshópsins var dr. Gunnar Haraldsson, hagfræðingur, sem skipaður var án tilnefningar. Í starfshópnum sátu einnig Dan Brynjarsson, sviðsstjóri fjársýslusviðs Akureyrarbæjar og Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga, Hanna Dóra Hólm Másdóttir fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Kristinn Bjarnason fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og Pétur Berg Matthíasson fyrir forsætisráðuneytið.

Skýrsla starfshóps um fjárhagsstöðu sveitarfélaga