Þann 17. ágúst síðast liðinn átti bæjarráð fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna fjárhagsstöðu Herjólfs ohf. þar sem meðal annars var kynnt lögfræðiálit er varðar greiðslur ríkisins vegna grunnvísitölu og öryggismönnunar á skipinu. Á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá fundinum hafa engin önnur viðbrögð komið frá ráðuneytinu við erindi bæjarins en að svarið berist á næstu dögum. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá því í hádeginu í dag. Þar er einnig tekið fram að þetta séu mikil vonbrigði og ekki til þess fallið að draga úr óvissu fyrir framhaldinu.