Í dag kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra útspil sitt í flugsamgöngum til landsbyggðarinnar, Loftbrú. Loftbrúin byggir á hinni svokölluðu og margumræddu skosku leið.

Loftbrú veitir öllum þeim sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum 40% afslátt af heildarfargjaldi á öllum áætlunarleiðum innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. 60 þúsund íbúar á þessum svæðum munu eiga kost á afsláttarkjörum Loftbrúar.
Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir).

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á kynningarfundi um Loftbrú í flugstöðinni á Egilsstöðum.

Mikið réttlætismál
Markmiðið með Loftbrú er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýta margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini.
„Í mínum huga er Loftbrú ein að mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í og með því er tekið stórt skref til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annarsstaðar en á suðvesturhorninu. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Breytir þetta einhverju í Eyjum?
Þá er situr bara eftir spurningin hvenær og hvort Eyjamenn geta nýtt sér þessi nýju afsláttarkjör þar sem ekkert áætlunarflug er til Eyja. Þá má líka spyrja sig hvort þessi 40% afsláttur þrisvar á ári breyti nokkru um nýtinguna á flugsætum á flugleiðinni Reykjavík – Vestmannaeyjar. Miðað við það að Ernir buðu 50% afslátt af öllu sínu flugi í sumar sem endaði með því að hætta þurfti flugi til Eyja m.a. vegna vannýtra ferða.

Nánar má kynna sér Loftbrúnna á loftbru.is