Lagðir voru fram viðaukar 5-7 við fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2020 á fundi bæjarráðs í vikunni. Samkvæmt viðaukanum eykst fjárfesting vegna Íþróttamiðstöðvar um 81 m.kr. vegna sérstakra framkvæmda við viðhald húsanna, aðgerðir vegna Blátinds um 9 m.kr. og útgjöld vegna viðbótaráðninga sumarstarfsfólks um 29,8 m.kr., en á móti koma tekjur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 3,2 m.kr., þannig að nettóáhrif viðbótarráðninga sumarstarfsfólks á aðalsjóð er um 26,6 m.kr. Alla jafna er greint frá breytingum á útgjöldum aðalsjóðs (þ.e. gjöldum og tekjum) í sérstakri frávikaskýrslu, en þar sem um átaksverkefni vegna Covid-19 var að ræða, var ákveðið að útbúa sérstakan viðauka um viðbótaráðningar sumarstarfsfólks fyrir árið 2020. Bæjarráð samþykkti í niðurstöðu sinni viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2020.