Björn Matthíasson, framkvæmdastjóri VSV Seafood Iceland, sölufyrirtækis Vinnslustöðvarinnar, situr í verkefnisstjórn nýrrar markaðsherferðar fyrir íslenskar sjávarafurðir í Bretlandi undir yfirskriftinni Seafood from Iceland. Að verkefninu standa Íslandsstofa, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og á fjórða tug fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi, tækni og þekkingarmiðlun.

Bretlandseyjar eru fyrsta markaðssvæðið sem tekið er fyrir og þar er byrjað að kynna íslenskt sjávarfang á samfélagsmiðlum, meðal annars með myndbandi sem auglýsingastofan Brandenburg gerði. Yfirskrift þess er Fishmas og sögumaður er Stuðmaðurinn og leikarinn Egill Ólafsson í hlutverki Father Fishmas. Þarna er á gamansaman hátt sögð saga með undirliggjandi tilvísun í jólin, ævintýraheim með Harry Potter-ívafi og fleira.

Vísað er til þess að íslenskur fiskur sé hollur matur, eigi uppruna sinn í hreinum sjó í heilnæmu umhverfi og að fiskistofnar við Ísland séu nýttir á sjálfbæran hátt.

Markaðsherferðin er liður í viðleitni íslensks sjávarútvegs til að þyngja sókn á erlendum mörkuðum og auka útflutningsverðmæti með einu upprunamerki, Seafood from Iceland.

Norðmenn hafa um árabil gert nákvæmlega þetta með góðum árangri, það er að segja að kynna sjávarafurðir sínar á erlendum mörkuðum sameiginlega með einu upprunamerki sem greiðir svo leið einstakra fyrirtækja til að kynna og selja afurðir sínar.