Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar var til umræðu og afgreiðslu á fundi bæjarstjórna sem fram fór á fimmtudag en fundargerð var birt í dag. Á bæjarstjórnarfundi þann 11. júní sl., voru lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn, drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt, sem starfshópur skipaður kjörnum fulltrúum Vestmannaeyjabæjar, vann á vormánuðum. Samkvæmt 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ber sveitarstjórnum að hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili, um samþykktir og aðrar reglur sem skv. lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra, þ.m.t. bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar.

Að lokinni fyrri umræðu í bæjarstjórn voru drögin send samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og óskað eftir athugasemdum. Gagnlegar ábendingar um breytingarnar á samþykktinni bárust frá ráðuneytinu, m.a. um gerð viðauka við samþykktina vegna fullnaðarafgreiðslna fagráða og einstakar greinar. Tekið hefur verið tillit til ábendinganna og liggja nú fyrir drög að viðaukum og breytingar á einstökum greinum samþykktarinnar. Hefur ráðuneytið samþykkt drögin fyrir sitt leyti, en að lokinni samþykkt bæjarstjórnar verður bæjarmálasamþykktin send sveitarstjórnarráðherra til staðfestingar.

Drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt voru lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Við umræðu um málið tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Íris Róbertsdóttir, Helga Kristín Kolbeins, Njáll Ragnarsson, Elís Jónsson, Trausti Hjaltason og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir.

Óábyrgt að auka rekstrarkostnað
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að fallið yrði frá áformum um fjölgun bæjarfulltrúa úr 7 í 9 og fjöldi bæjarfulltrúa haldist óbreyttur.

Í rökstuðningi með tillögunni sögðu fulltrúar sjálfstæðisflokksins að í íslensku samfélagi ríkir efnahagsleg óvissa og yfirvofandi kreppa vegna áhrifa af heimsfaraldri Covid19. Óábyrgt er á sama tíma að taka ákvörðun um að auka rekstrarkostnað Vestmannaeyjabæjar á þriðja tug milljóna á næsta kjörtímabili með fjölgun bæjarfulltrúa.

Engin lagaleg skylda er fyrir því að fjölga bæjarfulltrúum. Með óbreyttum fjölda uppfyllir Vestmannaeyjabær lagalegar skyldur sínar um fjölda fulltrúa.

Hvergi að finna á stefnuskrá
Hvorki H- né E-listi sem mynda meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar hafði fjölgun bæjarfulltrúa sem stefnumál fyrir kosningar. Umfang og eðli slíkrar ákvörðunar er veigamikið og hlýtur að eiga erindi við íbúa. Því gengur þessi ákvörðun gegn markmiði hennar um aukið lýðræði þar sem kjósendum var aldrei gert það ljóst að þessi stóra stefnubreyting stæði til.

Sé vilji meirihlutans sannarlega að auka lýðræði er einfalt að gera það strax á næsta fundi bæjarstjórnar og þyrfti því meirihluti H- og E-lista ekki að bíða fram yfir næstu kosningar. Það getur meirihlutinn gert með því að bæjarfulltrúar taki ekki sæti í ráðum og nefndum bæjarins líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerir. Með slíku fyrirkomulag er tryggð betri valddreifing og fleiri raddir samfélagsins fá að koma að ákvörðunartöku án þess að það feli í sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélagið.

Lengri fundir
Fulltrúar meirihlutans hafa gjarnan kvartað undan óhóflegri lengd bæjarstjórnarfunda þegar verið er að rökræða um málefni sem flokkana greinir á um. Fjölgun bæjarfulltrúa um 2, úr 7 í 9, gæti þar með aukið lengd bæjarstjórnarfunda um tæp 30% þar sem eðli málsins samkvæmt verða fleiri einstaklingar sem hafa málfrelsi á fundum. Slíkt er hvorki til þess fallið að auka skilvirkni starfa bæjarstjórnar eða gera störf bæjarfulltrúa eftirsóknarverðari.

Í rökum sínum með fjölgun bæjarfulltrúa var talað um að fleiri bæjarfulltrúar séu hvati að fjölgun framboða og komi í veg fyrir kerfi fárra en stórra flokka. Í því samhengi má benda á að í síðustu bæjarstjórnarkosningum þegar líkt og í dag voru 7 bæjarfulltrúar i bæjarstjórn bauð sig fram áður óþekkt framboð sem hlaut yfir 34% atkvæða.

Tillagan var felld með 4 atkvæðum E og H lista, gegn 3 atkvæðum D lista.

Ekki verið kallað eftir breytingum
Þá var borin upp önnur bókun frá fulltrúum D lista. “Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þykir miður að tillagan hafi verið felld þrátt fyrir rökstuðning gegn fjölgun bæjarfulltrúa. Bæjarbúar hafa ekki opinberlega kallað eftir þeim breytingum sem hér er verið að ákveða og því óljóst hverra hagsmuna er hér verið að gæta.”

Gefi réttari mynd af vilja kjósenda
Fulltrúar E og H lista bókuðu þá eftirfarandi. Með fjölgun bæjarfulltrúa er gefin réttari mynd af vilja kjósenda sem hefur í för með sér aukið lýðræði. Tillagan er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og þeim reglum um kosningar til sveitarstjórna, að kjörnir fulltrúar endurspegli vilja íbúanna. Með fjölgun þeirra eru tryggð sjónarmið stærri hóps kjósenda. Slíkt skiptir máli við stefnumótun og pólitíska ákvarðanatöku. Fjölgun bæjarfulltrúa gefur minni framboðum meiri möguleika á að ná kjöri.

Lækka má laun bæjarfulltrúa
Háværustu mótrök fulltrúa minnihlutans snúa að auknum kostnaði fyrir sveitarfélagið vegna fjölgunar bæjarfulltrúa úr 7 í 9 á næsta kjörtímabili 2022-2026. Með því gefur minnihlutinn sér að auka þurfi kostnað vegna fjölgunar. Það er ekki rétt. Það eru engin línuleg tengsl milli fjölda bæjarfulltrúa og aukins kostnaðar. Það er val. Með einföldum hætti má lækka þóknun fyrir störf í bæjarstjórn. Bæjarstjórn ákveður sjálf þóknun til handa bæjarfulltrúum. Kveðið er á um slíka ákvörðun í sveitarstjórnarlögum. Þóknun til bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum er t.a.m. í hærra lagi samanborið við mörg sveitarfélög á landinu. Með því að lækka laun bæjarfulltrúa um u.þ.b. 40 þús. kr. á mánuði, úr 185 þús. kr. í 143 þús kr. er hægt að fjölga bæjarfulltrúum án aukins kostnaðar fyrir skattgreiðendur í Vestmannaeyjum.
Hvað varðar þau sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að það auki lýðræði að tilnefna og handvelja í nefndir og ráð aðra fulltrúa en þá sem kjósendur hafa valið, geta varla talist lýðræðisleg. Kjósendur hafa kosið fulltrúa sína í formlegum sveitarstjórnarkosningum og eðlilegt að ætla að þeir skipti með sér verkum í fagráðum sveitafélagsins, líkt og kjörnir alþingismenn sitja í nefndum þingsins.

Íbúakosningu hafnað
Þá var borin upp eftirfarandi tillaga frá fulltrúa D lista. “Lagt er til að fresta afgreiðslu málsins og tíminn nýttur til að undirbúa íbúakosningu um málið þar sem íbúum Vestmannaeyjabæjar verður gefinn kostur á að leggja fram skoðun sína um málið.”

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Íbúafundur um málið
Þá var borin upp bókun frá fulltrúa E lista. Ég tel ekki þörf á því að fresta afgreiðslu málsins með þessum hætti. Nær væri að halda íbúafund á næstu mánuðum og eftir hann er hægur leikur að gera breytingar á bæjarmálasamþykktinni telji bæjarfulltrúar ástæðu til þess.

Hafa engan áhuga á skoðun bæjarbúa
Því var svarað með bókun frá fulltrúa D lista. Það eru augljóst að bæjarfulltrúar meirihlutans hafa engan áhuga á að leyfa bæjarbúum að hafa skoðun á þessari stefnumótandi ákvörðun þegar þeir fella tillögu um að leggja ákvörðunina í íbúakosningu. Orð meirihlutans um aukið lýðræði eru því ekkert nema orðin tóm.

Endurskoðuð bæjarmálasamþykkt var samþykkt með 4 atkvæðum E og H lista gegn 3 atkvæðum D lista.

Loforð um gegnsæi hjómið eitt
Málinu lauk svo með þessari bókun frá fulltrúa D lista. “Það er bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þungt að geta ekki samþykkt nýja bæjarmálasamþykkt en fulltrúar flokksins hafa lagt á sig mikla vinnu við endurskoðun samþykktarinnar og komið með fjölda gagnlegra ábendinga. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta hins vegar með engu móti samþykkt 1. Grein samþykktarinnar um fjölgun bæjarfulltrúa þar sem slíkt eykur kostnað sveitarfélagsins um tugi milljóna á tímum þegar aðhalds og ráðvendni í rekstri hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið jafn þörf. Engin tillaga hefur komið fram af hálfu meirihlutans um að lækka laun bæjarfulltrúa. Framboð H- og E-lista gerðu kjósendum sínum það aldrei kunnugt að þetta stóra stefnumál væri á dagskrá þeirra og hljóta kjósendur þeirra því að upplifa sig svikna. Loforð flokkanna um meira gegnsæi við ákvörðunartökur og aukið samráð við íbúa virðist því hafa verið hjómið eitt.”