Hlynur Andrésson bætti í gær eigið met í 10.000 metra hlaupi á braut. Metið setti hann á hollenska meistaramótinu. Frá þessu er greint í frétt á vef Frjálsíþróttasambands Íslands. Hlynur kom í mark á 28:55,47 mínútum og bætti eigið met um tæpa hálfa mínútu. Fyrra met Hlyns var 29:20,92 mínútur frá árinu 2018.

Hlynur fékk mjög harða samkeppni en sá sem kom fyrstur í mark í hlaupinu var frá Kenýu og var tími hans 26:58,97 mínútur sem er besti tími ársins í heiminum. Hlynur varð níundi í mark og fjórði af þeim sem kepptu á hollenska meistaramótinu en gestaþátttaka var leyfð.