„Það er auðvitað áhyggju­efni að geta ekki gengið að því að vera með fast­ar flug­ferðir til og frá Vest­manna­eyj­um,“ seg­ir Dí­ana Óskars­dótt­ir, for­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Suður­lands í samtali við Morgunblaðið, um þá ákvörðun flug­fé­lags­ins Ern­is að hætta flugi til og frá Vest­manna­eyj­um.

Fé­lagið flaug sína síðustu áætl­un­ar­ferð til Eyja fyrr í sept­em­ber­mánuði. Ástæðan þar að baki er sú að flug­leiðin bar sig ekki og var því ekki sjálf­bær.

Að sögn Díönu þurfa heil­brigðis­stofn­an­ir nú að treysta á þjón­ustu Herjólfs. Áður gátu um­rædd­ar stofn­an­ir sent sýni eða blóð með flugi til og frá Eyj­um. „Þetta er auðvitað mjög mikið ferðalag ef þú hef­ur ekki flugið. Fólk sem ætl­ar að sækja þjón­ustu í bæn­um verður jafn­framt að taka bát­inn. Við höf­um verið að nota flugið til að senda sýni og neyðarblóð. Þetta er því áhyggju­efni,“ seg­ir Dí­ana en í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í dag tek­ur hún fram að vanda­málið sé ekki bundið við Vest­manna­eyj­ar. Þannig búi fjöldi bæj­ar­fé­laga við sam­bæri­leg­ar aðstæður.

Nánar er rætt um þessi mál og önnur við Davíð Egilsson yfirlæknir á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum í næsta tölublaði Eyjafrétta.