„Á tímum sem við nú upplifum hafa orðið miklar samfélagsbreytingar. Veiran skæða hefur haft mikil áhrif og þá sérstaklega á samverustundir okkar við þá sem eldri eru og þá sem eiga lítið bakland.“ Segir Geir Jón Þórisson, formaður Rauða krossins í Vestmannaeyjum. Um nokkurt skeið hefur Rauði krossinn boðið upp á þjónustu í nærsamfélaginu sem hefur reynst vel og vel þegin. Þar er um að ræða svokallaða heimsóknavini, ökuvini og símavini. „Við viljum benda Eyjamönnum og öðrum á að nýta sér þessa þjónustu okkar en einnig væri gaman að fá nýja sjálfboðaliða inn í starfið með okkur,“ sagði Geir Jón.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem heimsækja fólk á heimili þess, á stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Misjafnt er hvað felst í heimsókn en það getur t.d. verið spjall, gönguferð, ökuferð, upplestur, aðstoð við handavinnu og svo framvegis. Beiðnir eru breytilegar, en reynt er að mæta þörfum og óskum gestgjafanna eins og kostur er. Viðmið er að heimsóknartími sé um klukkustund einu sinni í viku. Hvenær og hvar heimsóknin á sér stað er samkomulagsatriði hjá gestgjafa og heimsóknavini. Geir Jón segir að þessar heimsóknir geri mikið fyrir báða aðila. „Þetta hefur nýst vel fólki sem hefur átt lítið bakland eða fundið sig einmana. Það myndast oft mikill vinskapur og traust milli þessara aðila. Fyrir mörgum er þetta eina heimsóknin sem viðkomandi fær þá vikuna og skiptir öllu máli. Það er verðmætt að getað tjáð sig við einhvern á annan hátt en við fjölskylduna. Einnig finnst fólki gott að fá fréttir og annað úr nær samfélaginu sínu.

Geir Jón segir flesta sjálfboðaliða vera um eða á miðjum aldri. „Yngra fólk hefur ekki verið mikið í þessu hér í Eyjum en það er töluvert um að nemar í há- og framhaldsskólum séu í þessu á höfuðborgarsvæðinu. Ég þekki skemmtilegt dæmi af stúlku utan af landi sem stundaði nám í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hana langaði að gefa af sér og fær það verkefni að heimsækja fullorðna konu. Milli þeirra myndaðist mjög gott samband sem náði langt út fyrir vikulegar heimsóknir og það má segja að hún hafi eignast þarna auka ömmu í borginni.“

Símavinir talast við í síma tvisvar í viku og spjalla í hálftíma í senn um daginn og veginn, í stað þess að heimsækja fólk á stofnanir eða inn á einkaheimili. Fundinn er fastur tími sem báðum aðilum hentar. Þar sem sími er notaður eru fjarlægðir ekki hindrun og því auðvelt að eignast vini hvar sem er á landinu.

Sjaldgæft að símavinurinn búi í sama sveitarfélagi. Það getur verið auðveldara að tjá sig við manneskju sem er ekki að hrærast í nær samfélaginu. Fólk sem vill síður fá einhvern inn á heimilið hjá sér. Oft tekur tíma til að ná saman en nær alltaf finnst einhver samræðu grundvöllur.

Stjórn Rauða krossins í Vestmannaeyjum vill vekja athygli á þessari þjónustu sem í boði er en fylla þarf út eyðublað á heimasíðu Rauða kross Íslands, rki.is. Þá vill stjórnin einnig benda þeim á sem vilja gerast sjálfboðaliðar að fylla út eyðublað (vill gerast sjálfboðaliði) á sömu heimasíðu og tilgreina hvaða verkefni viðkomandi hefur áhuga fyrir, sem myndi síðan berast til okkar. Þá má einnig hafa samband við undirritaðan í síma 779-0140.

„Okkur er mikið í mun að þjónusta samborgara okkar eins vel og okkur er frekast kostur. Viljum alls ekki að neinn finni sig einmana eða undanskilin í okkar góða samfélagi. Aðsókn í þessa þjónustu hefur ekki verið mikil en það er okkar tilfinning að þörfin sé fyrir hendi og einstaklingar þarna úti sem þurfa á þessu að halda,“ sagði Geir Jón að lokum.