Á pari við tímabilið í fyrra

Minna af léttum og dúnuðum pysjum en áður

Svo virðist sem síðustu lundapysjurnar séu að lenda í bænum þessa dagana. Þegar þetta er skrifað fannst aðeins ein í dag, mánudag og ein í gær, sunnudag, er heildarfjöldi skráðra pysja í Pysjueftirlitið komið upp í 7440. Er það nánast á pari við síðasta ár en þá fóru 7706 pysjur í gegnum eftirlitið. Eftir nokkuð stöðuga fjölgun í fjölda pysja frá 2015 virðist fjöldinn því standa í stað sem mætti jafnvel túlka sem svo að einhver stöðuleiki sé að komast á stofninn.

Pysjueftirlitið 2020. Fjöldi skráðra pysja 7440 þar af 3941 vigtaðar að meðalþyngd 284 grömm.

Pysjurnar virðast hafa verið nokkuð stórar og pattaralegar í ár og er meðalþyngd vigtaðra pysja 284 g samanborið við 255 g í fyrra en er svipað og 2017 þegar hún mældist 285 g. Það ber þó að hafa í huga að í ár var eftirlitið í fyrsta skiptið eingöngu rafrænt sökum Covid-19 og því töluvert minna hlutfall pysjanna vigtaðar eða rétt rúmlega helmingur. Þá vigtaði stærsta pysjan í ár 394 g samanborið við 368 g í fyrra. „Það er mín tilfinning að minna hafi verið af litlum og dúnuðum pysjum í ár en oft áður,“ sagði Margrét Lilja Magnúsdóttir í samtali við Eyjafréttir en hún hefur komið að Pysjueftirlitinu síðan 2007. „Ég hef þó sjálf eðlilega ekki handleikið eins margar pysjur og oft áður, þar sem ég er ekki sjálf að vigta þær, en það er svona mín tilfinning.“

Margrét Lilja Magnúsdóttir hefur komið að Pysjueftirlitinu síðan 2007

Margrét sagðist einnig mjög ánægð með hvað pysjurnar voru snemma á ferðinni í ár. „Tímabilið er svona smá saman að færast fram á svipaðar slóðir og þekktist hér áður fyrr og við viljum hafa það. Fyrsta pysjan upp úr þjóðhátíð og sú síðasta í kringum upphaf skólahalds.“

Jeep – rafknúinn
JEEP- rafknúinn 02

Fyrsta pysjan í ár fannst 9. ágúst í ár en hefur verið að finnast í uppúr miðjum undanfarið ár, t.d. þann 18. á síðasta ári.
Þrátt fyrir að hafa sjálf ekki vigtað sama fjölda og undanfarin ár kvaðst Margrét samt alveg vera illa klóruð og fín eftir að hafa hreinsað fjöldann allan af olíublautum pysjum. „Þetta er samt ekkert í líkingu við síðast ár sem var algjört metár. Þá hreinsuðum við yfir 300 olíublautar pysjur en í ár eru þær um 130,“ sagði Margrét. Hún sagði þó hreinsunina hafa verið erfiðari í ár þrátt fyrir að nota sömu sápu og sömu aðferðir. „Venjulega hafa tvö böð dugað á hverja pysju en í ár höfum við oft á tíðum þurft allt að fjórar hreinsanir. Það virðist vera einhver fita í höfninni sem er mjög erfið viðureignar. Eitthvað efni sem ég er ekki að átta mig á hvað er.“ Margrét sagði ástand hafnarinnar hafa verið mikið betra í ár en í fyrra og vonar að það verði enn betra á næsta ári. „Ef höfnin væri hrein væri hún upplagður upphafsstaður fyrir ferðalag pysjunnar.

Samanburður, á fjölda skráðra lundapysja í Pysjueftirlitið, milli árana 2019 og 2020. Eins og sjá má voru pysjurnar rúmri viku fyrr á ferðinni í ár en fjöldin mjög svipaður.

Það er vonandi eitthvað sem koma skal.“„Við erum enn með slatta af pysjum sem við eigum eftir að útskrifa. Við erum með þrjár meiddar á vængi. Fjórar með skaddað auga og eru að fá hjá okkur augndropa og eina með lugnabólgu. Ég á þó von á því að „dúnaða deildin“ útskrifist öll næstu daga og það er farið að fækka verulega í „olíublautu deildinni,“ sagði Margrét og brosti. „Það er aldrei að vita nema við höldum þeim gott útskriftarpartý.“

Samanburður á heildarfjölda pysja og meðalþyngd frá upphafi eftirlitsins, 2003, til dagsins í dag.

Margrét sagðist heilt yfir mjög ánægð með hvernig til tókst með Pysjueftirlitið í ár. „Við erum mjög þakklát með þátttökuna í hinu rafræna eftirliti í ár og okkur heyrist fólk almennt ánægt með þessa tilhögun. Við erum búin að fá fullt af skemmtilegum myndum sem munu birtast á heimasíðunni okkar, lundi.is, á næstu dögum,“ sagði Margrét Lilja að lokum.

Mest lesið