Formaður Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir fiskiskipa til að vera á varðbergi gagnvart kórónuveirunni og herða eftirlit og skimun. Einhverjar útgerðir hafi það fyrir reglu að skima áhafnir fyrir brottför, en atburðir síðustu daga sýni nauðsyn þess að allir taki upp þá reglu. COVID-19 smit hafa komið upp á tveimur fiskiskipum síðustu daga. Allir skipverjar á línuskipinu Valdimar GK reyndust smitaðir og einn skipverji á skuttogaranum Þórunni Sveinsdóttur VE.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir þetta mikið áhyggjuefni í frétt á vef ruv.is. „Já þetta er mikið áhyggjuefni. Það er ekkert grín að fá smit um borð í skip og það er fljótt að ganga milli manna. Vinnustaðurinn skip, þá eru menn í mikilli nánd og það verður eiginlega ekkert komist hjá því.”

Ætlast til þess að menn herði sóttvarnir og skimun
Í fyrstu bylgjunni í vor hófu útgerðir að skima áhafnir fyrir brottför, á kolmunnaskipum meðal annars. Og á einhverjum skuttogurum fóru menn ekki frá borði meðan verið var að landa ef þeir áttu næsta túr á eftir. „Ég veit til þess að menn hafa verið að passa sig með þetta alveg frá því í vor. Kannski aðeins slakað á í sumar eitthvað, en ég held að þessar fréttir herði á því að menn fari að gera meira af því og passa sig bara betur,“ segir Valmundur.