Öllum starfsmönnum Isavia við flugvöllin í Vestmannaeyjum hefur verið sagt upp störfum. Þetta staðfesti Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavía, í samtali við mbl.is.

Flug­völl­ur­inn þjón­ar þó áfram kennsluflugi, sjúkra­flugi og einka­flugi og ljóst að þörf er á ein­hverj­um starfs­kröft­um. „Nú tek­ur við vinna við að greina starf­semi flug­vall­ar­ins í sam­starfi við starfs­menn­ina,“ seg­ir Guðjón, en um­rædd­ir starfs­menn eiga á bil­inu þriggja til sex mánaða upp­sagn­ar­frest. Öllum starfs­mönn­um verði boðið skert starfs­hlut­fall á vell­in­um.

Þetta þýðir að allir sem starfa við samgöngur í Vestmannaeyjar starfa í dag á uppsagnafresti. Svo sannarlega fordæmalausir tímar.

Í samtali við Eyjafréttir í byrjun september, þegar Ernir hætti áætlunarflugi, sagði Guðjón ákvarðanir um þjónustustig einstakra flugvalla hins vegar á forræði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. „Í dag starfa þrír starfsmenn Isavia Innanlandsflugvalla á Vestmannaeyjaflugvelli í þremur stöðugildum. Það er of snemmt að segja til um hvort þessi ákvörðun hafi áhrif á störf þeirra. Ákvarðanir um þjónustustig einstakra flugvalla í innanlandsflugvallakerfinu eru á forræði samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins. Núverandi þjónustustig er skilgreint í þjónustusamningi milli Isavia og ráðuneytisins. Það þjónustustig hefur tekið mið af áætlunum flugfélaga á hverjum flugvelli.

Framtíð Vestmanneyjaflugvallar er, eins og annarra flugvalla í innanlandsflugvallakerfinu, í höndum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Stjórnvöld taka ákvarðanir sem snerta þjónustustig og fjölda flugvalla í innanlandsflugvallakerfinu. Eins og staðan er í dag hafa ekki verið uppi hugmyndir um önnur verkefni fyrir flugvöllinn.“

Það er því ljóst að framtíð flugvallarinns og flugsamgangna til Vestmannaeyja liggur hjá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.