Vest­manna­eyja­ferj­an Herjólf­ur fór í þurrkví í Hafnar­f­irði í gær. Þar fer fram ábyrgðarskoðun, í sam­ræmi við smíðasamn­ing. Gert er ráð fyr­ir að skipið verði frá í um það bil þrjár vik­ur og leys­ir Herjólf­ur III það af á meðan. Fór sá gamli fyrstu ferðina í Land­eyja­höfn í fyrra­dag.

Guðbjart­ur Ell­ert Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Herjólfs ohf., seg­ir í samtali við mbl.is að frá því skipið kom til lands­ins hafi komið upp ýmis mál, stór og smá, sem þurfi að fara yfir og lag­færa. Full­trú­ar pólsku skipa­smíðastöðvar­inn­ar og viðeig­andi und­ir­verk­taka komi til lands­ins til að fara yfir þessi atriði. Meðal atriða sem lag­færa þarf er loftræst­ing í rými fyr­ir raf­hlöður skips­ins. Ekk­ert atriði er það stórt að skipið hafi ekki getað siglt.

Gamli Herjólf­ur er djúprist­ari en sá nýi. Er nægi­legt dýpi í Land­eyja­höfn, eins og er, og verður fylgst með þróun mála. Guðbjart­ur seg­ir að hann sé hins veg­ar viðkvæm­ari fyr­ir sjó­lagi og veðri en nýrra skipið. Verður að koma í ljós hvernig þau mál þró­ast næstu vik­ur.