Í drögum að nýrri reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla er gert ráð fyrir að eftirlitsmyndavélar verði settar upp í hverri höfn þar sem sjávarafla er landað. Myndavélunum skal koma fyrir þannig að þær sýni bæði löndunaraðstöðu og vigtunaraðstöðu, og „skulu stilltar þannig að hægt sé með þeim að fylgjast með samfelldri ferð afla frá veiðiskipi til vigtunar á hafnarvog.“

Þær eigi jafnframt að vera tengdar við myndþjón sem skráir og varðveitir allt myndefni í að minnsta kosti þrjá mánuði, og einnig skuli þær vera tengdar við skjái sem sýnilegir eru vigtunarmönnum. Tekið er fram að myndavélarnar skuli vera með 5Mpix upplaun hið minnsta og þéttleikinn sé ekki minni en IP67. Auk þess skuli búnaðurinn bjóða upp á bæði vélræna og stafræna þysjun.

Óraunhæf krafa?
Reglugerðin er samin með vísan í 6. grein laga um umgengni um nytjastofna sjávar þar sem segir að hafnir skuli „uppfylla kröfur um aðstöðu til vigtunar sjávarafla og eftirlit sem kveðið er á um í reglugerð.“ Jafnframt er tekið fram að reglugerðin hafi verið unnin í nánu samráði við Fiskistofu.

Reglugerðin hefur verið í kynningu á Samráðsgátt stjórnvalda og fimmtudaginn 1. október rennur út frestur til að skila inn athugasemdum. Í síðustu viku birtist þar umsögn frá Karli Einari Óskarssyni í Reykjanesbæ sem segir m.a. kröfuna um að hægt verði að fylgjast með aflanum allt frá veiðiskipi til vigtunar að mörgu leyti vera óraunhæfa, „þar sem hafnaraðstöður eru oft fleiri en ein og langt á milli vigtar og löndunarstaðs. Þannig að myndavélakerfið þyrfti að vera gríðarlegt til að uppfylla þessa kröfu.

fiskifrettir.is