Vegna aðstæðna í samfélaginu og hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins ákvað stjórn KSÍ á fundi sínum síðdegis í dag, miðvikudag, að fresta mótahaldi innanlands í öllum aldursflokkum í eina viku.

Knattspyrnuhreyfingin hefur á síðustu mánuðum leitast við að fylgja reglum og tilmælum heilbrigðisyfirvalda og gripið til sóttvarnaraðgerða til þess að æfingar og keppni í mótum – allra aldursflokka – gætu farið fram á sem öruggastan máta.

Ákvörðun KSÍ er tekin vegna almannahagsmuna og tilmæla sóttvarnarlæknis en stjórnin mun endurmeta stöðu mála í næstu viku. Markmið stjórnar KSÍ um að ljúka keppni samkvæmt mótaskrá stendur enn sem komið er óhögguð þrátt fyrir frestanir leikja.

Því er sem fyrr beint til aðildarfélaga að þau gæti að ítrustu sóttvarnarreglna við æfingar og í allri sinni starfsemi eins og við á.

Það er von KSÍ að með samtakamætti og liðsheild megi vinna bug á þeirri bylgju smita sem nú gengur yfir samfélagið.

Kveðja,
KSÍ