Herjólfur var tekinn upp í þurrkvínna í Hafnarfirði í lok síðasta mánaðar. Þar fer nú fram ábyrgðarskoðun, í samræmi við smíðasamning. Upphaflega var gert er ráð fyrir að skipið yrði frá í um það bil þrjár vikur og leysir Herjólfur III af á meðan. Við höfðum samband við Guðbjart Ellert Jónsson framkvæmdastjóra Herjólfs OHF og spurðum út í framvindu verksins. „Það gengur eftir atvikum en gera má ráð fyrir að verkið dragist eitthvað. Ekki liggur fyrir hvenær verklok verða og ferjan kemst í rekstur að nýju.“

Ábyrgðarmálin 153
Guðbjartur sagði að mestu leyti væri verið að vinna í ábyrgðamálum en væri tíminn og aðstaðan notuð til að huga að öðrum verkum og almennu viðhaldi. „Það er nokkur fjöldi af ábyrgðarmálum sem verið er að hreinsa upp eða um 153 atriði, smá sem stór sem tilheyra þeim flokki. Meðal þess sem verið að vinna að er botnmálun og yfirferð á skrúfubúnaði þar sem leki kom í ljós og verður hann lagaður. Lagfæringar í teríu og starfsmannaaðstöðu svo eitthvað sé nefnt, sagði Guðbjartur.

Meðfylgjandi myndir tók vélstjórinn síkáti Ágúst Halldórsson.