Engin ný smit hafa greinst í Vestmannaeyjum síðan 30. september sl. Eru nú tveir í einangrun og þrír í sóttkví í Vestmannaeyjum. Nú er vetrarfrí framundan í grunnskólanum og gerir fólk sér gjarnan dagamun í slíkum fríum, t.d. með ferðum á fastalandið. Því vil aðgerðastjórn enn á ný biðla til bæjarbúa að forðast óþarfa ferðalög. Við verðum að fara varlega þar sem veiran fer ekki í vetrarfrí. Við erum í viðkvæmri stöðu þar sem fjölmörg smit hafa greinst á landinu síðustu daga og er faraldurinn enn í vexti.

Okkur hefur tekist vel til í þessari þriðju bylgju og hafa aðeins fimm smit greinst hér í Vestmannaeyjum. Smitvarnir hafa verið til fyrirmyndar hjá bæjarbúum, fyrirtækjum og stofnunum og hafa allir lagst á eitt í þeim efnum.

Vill aðgerðastjórn því þakka ykkur fyrir að vera til fyrirmyndar. Höldum áfram að hjálpast að, hvetjum hvort annað áfram og stöndum saman. Samstaða er besta sóttvörnin!

F.h. aðgerðastjórnar,
Arndís Bára Ingimarsdóttir, aðgerðastjóri