Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar í botni Friðarhafnar í Vestmannaeyjum þar sem rísa mun 4.500 fermetra fiskvinnsluhús á tveimur hæðum og frystigeymsla í eigu Leo Seafood. Húsið verður hrein viðbót við núverandi starfsemi Leo Seafood að Garðavegi 14 þar sem nú starfa um 70 manns.
Á síðasta ári voru unnin alls 7.000 tonn af hráefni í fiskvinnslu Leo Seafood. Fyrirtækið stefnir að því að vinnslugetan verði komin upp í 10-12.000 tonn þegar að fiskvinnslan verður risin við Friðarhöfn.
Fyrirtækið byggir á grunni fiskvinnslufyrirtækisins Godthaab í Nöf sem stofnað var árið 2001. Fyrirtækið er í eigu, Sigurjóns Óskarssonar skipstjóra og fjölskyldu auk Daða Pálssonar. Fyrirtækið starfrækir einnig söluskrifstofuna Leo Fresh Fish á Íslandi sem og í Frakklandi.

Leo Seafood kaupir hráefni af þeim bátum sem landa í Vestmannaeyjum ásamt því að kaupa af fiskmörkuðum. Leo Seafood vinnur eingöngu þorsk, ýsu og ufsa. Hráefnið er unnið í ferskar, frosnar og saltaðar afurðir og seldar á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum.
Vinnsla á öðrum tegundum
„Við getum ekki stækkað fiskvinnsluna á Garðavegi meira en við höfum þegar gert. Okkur vantar tilfinnanlega frystigeymslu. Við ætlum að reisa 800 fermetra frystigeymslu á nýja staðnum. Við ætlum líka að eiga möguleika á því að geta hafið þar í framhaldinu vinnslu á öðrum tegundum,“ segir Daði.
Hann segir að fyrirtækið horfi til framtíðar. Það hafi mikla trú á byggðarlaginu og innviðum þess sem og fiskveiðistjórnunarkerfinu. Engum blöðum sé um það að flétta að Íslendingar standi einna fremst þjóða í fiskvinnslu hvað varðar gæði og afhendingaröryggi. Þetta sé góður grunnur til að byggja á.
Daði segir að framkvæmdahraðinn muni ráðist talsvert af ytri þáttum eins og veður- og tíðarfari og framvindu í öðrum málum sem menn glími við í dag eins og Covid 19 heimsfaraldrinum. Engin föst dagsetning sé því sett á verklok.
Brothættir markaðir
„Erlendir markaðir eru afar brothættir um þessar mundir. Salan tekur mjög svo mið af heimsfaraldrinum og hann ræður líka miklu um það hvaða pakkningar seljast helst. Við erum á mörgum mörkuðum, eins og austur Evrópu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Sviss og Bandaríkjunum. Eins og staðan er núna erum við erum algjörlega háð faraldrinum, salan fer upp og niður allt eftir því hvernig staðan er hverju sinni. Við þurfum að vera á tánum alla daga. Kaupendur erlendis eru ekki að taka miklar birgðir þannig að við þurfum að geta brugðist skjótt við þegar pantanir berast.“
100 manns á báðum stöðum
Í nýju fiskvinnslunni verða flökunarvélar, flæðilína og vatnsskurðarvélar. Ennfremur verða settir upp lausfrystar. Daði segir ljóst að gangi allt eftir þurfi að fjölga starfsmönnum fyrirtækisins verulega. Stefnt sé að því að hafa stöðuga vinnslu á nýja staðnum til framtíðar.
„Við stefnum að því að vera með alls 100 manns í vinnu í framtíðinni. Við starfrækjum áfram vinnsluna á Garðavegi en þar er framkvæmdum að ljúka. Vinnslusalir hafa verið endurnýjaðir og erum við að klára stækkun á skrifstofu og móttökurými. Í sumar var sett nýtt þak á húsið og það klætt að utan.“
Daði segir að ekki sé síst litið til vinnslu tegunda sem nú eru að miklu leyti fluttar óunnar út, eins og til dæmis karfi en líka fari talsvert óunnið út af þorski, ufsa og ýsu. Vilji sé til þess að vinnsla á hluta þessa hráefnis fari fram hérlendis.
Hann nefnir að Vinnslustöðin sé eina fiskvinnslan í Vestmannaeyjum sem vinni karfa og almennt fari ekki fram mikil karfavinnsla á Íslandi. Góður markaður sé fyrir karfaafurðir, til dæmis í Þýskalandi. Í þessu samhengi má nefna að Fiskifréttir hafa fjallað um velheppnaða markaðssetningu fyrirtækisins Marós GmbH í Cuxhaven á karfa. Fyrirtækið er í eigu Vestmannaeyingsins Óskar Sigmundssonar.
Daði segir að vel hafi gengið að útvega vinnslunni hráefni. Fiskirí hafi verið gott frá því í febrúar og mars þótt dregið hafi úr veiðunum síðasta mánuðinn. Þær séu svo að glæðast á ný núna.
