„Það er reiknað með að póstbox á landsbyggðinni verða sett í notkun 15. nóvember. Þau verða öll gangsett á sama tíma. Prófanir fara í gang í dag á Selfossi til að tryggja að öll kerfi verði í lagi þegar við förum „live““, sagði Ingimar Sveinn Andrésson hjá Póstinum í Vestmannaeyjum í samtali við Eyjafréttir

Hann segist reikna með að uppsetning á póstboxi fari fram í næstu viku hérna í eyjum og það verði mikla þjónustuaukning fyrir viðskiptavini. Þeir geta nálgast sendingar í póstbox allan sólarhringinn. „Biðröð á pósthúsi á hefðbundnum opnunartíma er óþörf  ef afhendingarval er póstbox. Að nýta sér þessa þjónustu verður mjög einfalt, sérstaklega þegar nýja appið okkar kemur sem væntanlegt er á næstu vikum.“

Ingimar segir það einstaklega ánægjulegt hvað Íslandspóstur hefur getað bætt þjónustu við Eyjamenn á þessu ári þrátt fyrir erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. „Við erum ekki lengur talinn vera „afdalir“ í póstheimum með seinkaðri afhendingu eins og áður var þegar Eyjar voru alltaf +1 dagur í sendingartíma hér áður. Að við séum með í fyrstu bylgju í uppsetningu póstboxa á landsbyggðinni eru greinileg merki þess að Íslandspóstur vill veita okkur Eyjamönnum hágæða þjónustu,“ sagði Ingimar brattur.

Nánari upplýsingar um póstbox má nálgast hér