Sólrún Erla Gunnarsdóttir deildarstjóri öldrunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar mætti á fund Fjölskyldu- og tómstundaráðs í gær til að segja frá verkefninu “Út í sumar” sem og öðrum verkefnum sem hún er að vinna að og tengist öldrunarmálum.
Öldrunarþjónusta Vestmannaeyjabæjar heldur áfram að rúlla þessar vikurnar þrátt fyrir veiruógnina sem vofir yfir. Stuðningsþjónustan hefur haldið sínu striki að mestu, dagdvölin hefur náð að vera opin en lokað er á milli hjúkrunarheimilis og dagdvalar ásamt því að íbúar í þjónustuíbúðum fá þjónustu í sínum kjarna. Svokallaðir kostgangarar sem komið hafa í mat í hádeginu á Hraunbúðir fá flestir hádegismatinn sendan heim. Starfsemi félags eldri borgara liggur að mestu leyti niðri en félagið heldur úti öflugri fésbókarsíðu þar sem stjórnendur síðunnar eru til fyrirmyndar með að setja inn skemmtilegt efni til dægrarstyttingar. Heilsueflingarverkefnið 65 hefur verið með mjög breyttu sniði undanfarið, en haldið inni fræðslu og æfingum á netinu ásamt hreyfingu utanhúss.

Opið fyrir heimsóknir
Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hraunbúðir hefur náð að hafa opið fyrir heimsóknir aðstandenda með ákveðnum takmörkunum þó, þar passar starfsfólk vel upp á sóttvarnir og hefur allt gengið vel hingað til. Þau verkefni sem verið er að skoða í dag eru að yfirfara enn og aftur alla verkferla vegna veiruógnar og einnig eru starfsmenn með í undirbúningi að fara út í að taka símtöl við hluta af eldri borgurum, líkt og gert var í fyrstu bylgju Covid 19.

Almenn ánægja með “út í sumarið”
Í Covidpásunni s.l sumar stóð Vestmannaeyjabær í samvinnu við félag eldri borgara fyrir verkefninu “Út í sumarið”. Tilurð verkefnis var að félagsmálaráðuneytið hvatti sveitarfélög til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun sem orðið hafði verið vegna Covid 19 og veitti til þess styrk. Verkefniðstóð yfir frá júní og til byrjunar ágústmánaðar. Mjög góð þátttaka var á viðburðum en undirmarkmið var að njóta þess sem eyjan hefur upp á að bjóða í góðum félagsskap. Farið var á Eldheimasafnið og í þjóðhátíðarstemningu í Sagnheima, í útijóga á Skansinum, túristaferð í rútu um eyjuna, varmadælustöðin skoðuð, Grímur kokkur sóttur heim, Rabbi og frú á Dala-Rafn buðu í ógleymanlega bátsferð á Halkion, Bergþór Pálsson, Jarl Sigurgeirs og Ester Bergs fluttu okkur ljúfa tóna ofl. Síðasti viðburðurinn var síðan rafrænn fyrirlestur um góð ráð gegn kvíða sem Kvíðameðferðarstöðin hannaði fyrir eldri borgara í Vestmannaeyjum. Þetta verkefni náði að létta aðeins lundina áður en næstu tímabil veirunnar skullu á og var almenn ánægja með verkefnið.

Aldur er bara tala
Deildarstjóri öldrunarmála hjá Vestmannaeyjabæ vinnur síðan að sjálfstæðu verkefni sem heitir “Aldur er bara tala”. Verkefnið á að gagnast eldri borgurum hvar sem þeir búa á landinu. Verkefnið er vefsíða sem miðar að því að bjóða upp á ráðgjöf á netinu til eldri aldurshópa en mun einnig hafa fræðslu- og skemmtanagildi. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands og gerður hefur verið verksamningur við Félagsmálaráðuneytið um það.

Ráðið þakkaði kynninguna og óskar deildarstjóra velfarnaðar með verkefnið “Aldur er bara tala” sem er virkilega spennandi viðbót við fræðslu og ráðgjöf til eldra fólks á öllu landinu.