Samningaviðræður milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs standa enn yfir en málið var til umræðu á fundi Bæjarráðs í gær. Mikilvægt er að niðurstaða þeirra viðræðna verði ljós á allra næstu dögum sérstaklega í ljósi þess að búið er að segja öllum upp störfum hjá útgerðinni sem rekur skipið og taka þær uppsagnir gildi eftir fáeinar vikur. Mikilvægt er að halda starfsfólki félagsins upplýstu um gang mála.

Nú eru tæpir tveir mánuðir síðan flugfélagið Ernir ákvað fyrirvaralaust og án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld að hætta flugi til Vestmannaeyja. Ólíklegt er að flugfélög sjái sér hag í því að hefja flug í vetur án stuðnings. Fordæmi eru fyrir því að flug hafi verið styrkt af hálfu ríkisins með litlum fyrirfara í sambærilegu millibilsástandi og hefur Vestmannaeyjabær tekið upp við samgönguráðuneytið að skoðuð verði leið til að tryggja flug hingað í vetur og er það nú til skoðunar í ráðuneytinu.

Flugrekstraraðilar hafa allir leyfi til að fljúga til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum, en það eru engir styrkir og engir samningar sem Vestmannaeyjabær gerir um flug, aðeins hvatning til rekstraraðila. Vestmannaeyjabær hefur aftur á móti sett fjármuni í markaðsátak sbr. sl. sumar sem ætti að nýtast fluginu.

Vestmannaeyjabær er hér eftir sem hingað til tilbúinn í samtal við hvern þann sem hefur áhuga á því að fljúga milli lands og Eyja.