Landspítali starfar nú á neyðarstigi vegna COVID-19. Þetta ástand hefur áhrif á heilbrigðiskerfið allt við höfðum samband við Örnu Huld Sigurðardóttur deildarstjóra á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum og spurðum hana út í áhrif þessa ástands á starfsemina í Vestmannaeyjum. „Við höfum tekið við sjúklingum sem búa hér í Eyjum, sem hefðu annars útskrifast frá LSH. En ekki hægt að segja að starfsemin hafi breyst mikið, en við erum alveg viðbúin að það gæti gerst,“ sagði Arna. Hún segist finna fyrir auknu álagi á kerfinu. „Já, almennt séð hægt að segja að við finnum fyrir auknu álagi. Það hefur haft þau áhrif að við bíðum lengi eftir svörum úr sýnatökum, bæði hjá sjúklingum sem og með starfsmönnum en sem betur fer eru þau tilfelli ekki mörg.“ Arna segir það líka hafa breyst að fyrstu bylgju hafi Landspítalinn viljað fá alla þá sjúklinga sem hafi þurft að leggjast inn til sín. Sá háttur er ekki lengur hafður á. „Ef einhver þarf sérhæfða meðferð sem við getum ekki sinnt hér, t.d. gjörgæslu, þá mun viðkomandi vera sendur. Annars sinnum við því hér, eins og staðan er núna. En þetta getur allt breyst.“

Finnum fyrir því að flugið vanti
Arna segir aðra þætti líka hafa áhrif á starfsemina þessa dagana. „Við finnum mikið fyrir því að ekki sé flogið hingað. Við erum í vandræðum að koma sýnum frá okkur sem og að fá ákveðnar vörur til okkar, eins og lyf, blóð og hjúkrunarvörur sem okkur vantar oft með stuttum fyrirvara. Einnig er aukið álag á starfsfólk þar sem að ef einhver starfsmaður finnur fyrir slappleika þá mætir hann ekki í vinnu og við þurfum að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Starfsfólk, heimilismenn og sjúklingar langþreyttir á ástandinu en allir sýna þessu skilning. Aðstandendur hafa verið einstaklega skilningsríkir og þökkum við þeim kærlega fyrir. Bíðum svo öll spennt eftir að geta byrja aftur að lifa sem eðlilegustu lífi,“ sagði Arna að lokum.