Í gær greindust tveir tengdir einstaklingar jákvæðir fyrir COVID-19 en síðar kom í ljós að þeir eru með mótefni. Að svo stöddu er ekki talið að viðkomandi einstaklingar hafi smitað út frá sér hér í Vestmannaeyjum.

Gripið hefur verið til hertra aðgerða á landsvísu sem gilda næstu tvær vikurnar hið minnsta. Það getur verið vandasamt að þurfa að fylgja ströngum reglum um sóttvarnir þegar engin smit eru hér í Vestmannaeyjum. Okkur ber líkt og landsmönnum öllum skylda til að fylgja reglunum og hefur fjöldi smita engin áhrif á þá skyldu. Eins og við þekkjum geta aðstæður breyst hratt þar sem eitt smit getur dreift sér víða, en reglurnar miða fyrst og fremst að því að takmarka útbreiðslu smita. Það er því bráðnauðsynlegt að fylgja reglunum, óháð smitum í kringum okkur, sem og öðrum fyrirmælum um sóttvarnir, t.d. í verslunum og þjónustu og í tengslum við skólahald.

Við verðum öll að standa saman og vera í sama liðinu, gegn veirunni. Við verðum að klára þetta saman.

Baráttukveðjur til ykkar kæru bæjarbúar.

F.h. aðgerðastjórnar,
Arndís Bára Ingimarsdóttir, aðgerðastjóri.