Safnahelgi í skugga Covid

Spennandi sýningar í verslunargluggum í miðbænum 12.-15. nóvember nk.

Úr Ljósmyndasafni Vestmannaeyjabæjar

Safnahelgin og síðar Safnavikan hafa verið ljósið okkar í upphafi skammdegisins sem hellist yfir á þessum árstíma. Verið ein allsherjar menningarveisla þar sem ótrúlegur fjöldi listamanna hefur komið við sögu undanfarin 16 ár, venjulegast fyrstu vikuna í nóvember.

Þetta ár er skrítið svo vægt sé til orða tekið og horfum við inn í annan veruleika með ströngum samskiptareglum og samkomubanni. Það þarf ekki að rekja þær raunir nánar en ákveðið var að vera með sýningar sem falla að breyttum forsendum í nafni Safnahelgar.

Vegna þessa hefur starfsfólk Safnahúss og Sagnheima fengið verslunareigendur í miðbænum í lið með sér til að sýna valið efni frá sér og verður það sýnt í gluggum í sjónvarpi á völdum stöðum í miðbænum sem verða nánar auglýstir er nær dregur. Þetta verða 10 til 12 staðir og tilvalið að labba á milli þeirra og kíkja á þessa gullmola. Sýningarnar hefjast kl. 18.00 fimmtudaginn 12. nóvember, hver um 10 mínútur að lengd og rúlla yfir alla helgina.

Jeep – rafknúinn
JEEP- rafknúinn 02

Annars vegar verða sýndar kvikmyndir frá Vestmannaeyjum, svokallaðar Heimaklettsmyndir sem loksins eru komnar heim eftir 30-40 ára útlegð. Myndirnar hafa verið hreinsaðar og lagfærðar eins og unnt er og eru ótrúlega skýrar miðað við aldur. Er þar margt sem á eftir að koma á óvart, myndir frá Þjóðhátíð, 17. júní á Stakkó og dansiballi í Höllinni. Algjör gullkorn þar sem sjá má margt fólk sem setti svip á Vestmannaeyjar á síðustu öld.

Hins vegar er um að ræða valið efni úr safni Ljósmyndasafns Vestmannaeyjabæjar sem er eitt það stærsta á landinu. Þar kennir margra grasa og hver veit nema þér og þínum bregði fyrir á myndunum sem eru mannlífsmyndir úr Vestmannaeyjum undanfarin 70 ár.

 

Mest lesið