Kynning á niðurstöðum úr ánægjukönnun sem gerð var meðal foreldra og nemenda varðandi teymiskennslu var til umræðu á fundi fræðsluráðs í vikunni. Skólastjóri kynnti niðurstöður úr könnuninni sem send var rafrænt á foreldra og nemendur í 6. bekk en sá árgangur var í teymiskennslu á síðasta skólaári. Svarhlutfall var gott hjá báðum hópum og heilt yfir var almenn ánægja meðal nemenda og foreldra með skólann og teymiskennsluna. Í dag eru tveir árgangar í teymiskennslu, þ.e. 5. og 6. bekkur, en jafnframt er vísir að teymiskennslu í einstaka greinum í öðrum árgöngum.

Teymiskennsla einkennist fyrst og fremst af samvinnu um nám og kennslu nemenda. Kennarar telja að þegar unnið er í teymum komi fram fleiri hugmyndir, skoðanir og möguleikar á lausnum. Kostir teymiskennslunnar liggi í samstarfinu þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Teymiskennslan býður upp á tækifæri til að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda, meiri sveigjanleika og fjölbreytni í verkefnum. Fleiri kennarar eru til að aðstoða nemendur og nemendur tengjast þá fleiri kennurum og hafa fleiri til að leita til.