Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2021 var til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri bar upp áætlunina og sagði í máli sínu að áfram yrði fjárhagsstaða sveitarfélagsins traust, en áhrif af covid-19 muni gera það að verkum að rekstrarafkoma bæjarsjóðs verður verri en undanfarin ár. Ekki standi til að skerða þjónustu við bæjarbúa né heldur grípa til uppsagna á starfsfólki. Stefnt væri að jákvæðum rekstarafgangi, en hann væri mjög lítill. 

Gjöld ekki hækkuð
Í framhaldi af framsögu bæjarstjóra var borin upp tillaga H- og E-lista um að gjöld fyrir leikskóla, matarkostnað fyrir börn, dagvistargjöld, frístund og matarkostnaður fyrir eldri borgara myndi ekki hækka á árinu 2021. Greidd voru atkvæði um tillöguna og var hún samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur. Oddviti Sjálfstæðisflokksins bókaði að eðlilegt væri að tengja gjöld á þjónustu við vísitölu til að koma í veg fyrir að síðar þurfi að hækka verulega álögur og sagði að ákjósanlegra væri að lækka útsvar og koma þannig til móts við alla skatgreiðendur sveitarfélagsins. 

Deilur um sorporkustöð
Á fjárhagsáætlun ársins 2021 er ekki gert ráð fyrir nýrri sorporkustöð líkt og áður hafði verið gert ráð fyrir. Fulltrúar meirihlutans rökstyðja þá ákvörðun með því að benda fyrst og fremst á óhagstætt gengi krónunnar á meðan minnihlutinn telur löngu tímabært að klára þetta verkefni og segja það umhverfislega ábyrgt og benda jafnframt á að nú sé verið að flytja hluta sorps með Herjólfi sem er óásættanlegt. 

Skortur á gögnum og sein svör
Enn á ný gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins meirihlutann fyrir sein, og jafnvel engin svör við þeirra fyrirspurnum. Lagði oddviti Sjálfstæðisflokksins fram harðorða bókun vegna málsins. “Undirrituð gagnrýnir takmarkaða og seina upplýsingagjöf bæjarstjóra við formlegum spurningum undirritaðrar um launakostnað, aukningu stöðugilda og skort á formlegum ákvörðunum vegna þeirra og af hverju tímabundnar ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ eru ekki auglýstar. Þegar óskað er svara við einföldum, skriflegum spurningum er óásættanlegt að það taki bæjarstjóra lengur en 2 sólahringa að svara. Aldrei nokkurn tímann hefur það tekið aðra starfsmenn sveitarfélagsins viðlíka tíma að svara þegar til þeirra hafa verið beint álíka spurningum en fulltrúum minnihlutans hefur verið gert að beina öllum spurningum sínum til bæjarstjóra og þannig hefur aðgengi þeirra að starfsmönnum sveitarfélagsins og upplýsingagjöf verið takmörkuð verulega.”

Bæjarstjóri svaraði ofangreindri bókun með einni stuttri: “Ég frábið mér þessar ákúrur.”

Að lokum var samþykkt var með fjórum atkvæðum E og H- lista gegn þremur atkvæðum D- lista að vísa fjárhagsáætlun 2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Upptöku frá fundinum í heild sinni má sjá hér að neðan: