Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var gerð grein fyrir fundi sem bæjarráð átti ásamt bæjarfulltrúum með samninganefnd Vestmannaeyjabæjar um rekstur Herjólfs. Fulltrúar nefndarinnar hafa fundað stíft og reglulega með Vegagerðinni og eru samningaviðræður á lokametrunum og niðurstöðu að vænta fljótlega um áframhaldandi rekstur Vestmannaeyjabæjar á Herjólfi.

Ráðningar að renna út
Afar brýnt er að eyða þeirri óvissu sem starfsfólk félagsins er í sem allra fyrst enda renna ráðningar út um næstu mánaðarmót. Stjórn félagsins hefur átt samtöl við fulltrúa áhafnar skipsins varðandi stöðu mála. Nauðsynlegt er að fá úr því skorið hvort Vestmannaeyjabær fái áfram tækifæri til þess að reka skipið áður en hægt verður að ganga frá ráðningum. Því er mikilvægt að viðræðum ljúki sem allra fyrst.

Brýnar flugsamgöngur
Þá telur bæjarstjórn afar brýnt að flugsamgöngur komist á milli lands og Eyja sem fyrst enda mikilvægt að áætlunarflugi sé haldið uppi, einkum og sér í lagi með tilliti til stöðu heilbrigðisþjónustu yfir vetrartímann. Stefnt er að því að funda með fulltrúum samgönguráðuneytisins um stöðu flugsamgangna í næstu viku.