Bilun kom upp um borð í togaranum Drangavík VE þegar skipið var á veiðum austur í Breiðamerkurdýpi í morgunn. „Þetta er bilun í skiptiskrúfunni sem veldur því að það er ekki hægt að minnka skrúfuskurðinn. Skipið keyrði fyrir eigin afli til Eyja en það þótti ráðlegt að kúpla frá við Bjarnarey og láta lóðsinn draga hana inn. Þeir geta ekki stjórnað aflinu á skrúfubúnaðnum og því mjög erfitt að athafna sig innan hafnar og því ákveðið að fara þessa leið,“ sagði Sverrir Haraldsson hjá Vinnslustöðinni sem gerir út Drangavík.

Næst tekur við löndun auk þess sem bilunin verður skoðuð nánar. „Við vitum ekki hversu alvarlegt þetta er það er ekkert ólíklegt að það þurfi að lyfta honum upp og skoða skrúfuhausinn betur en þetta kemur betur í ljós þegar búið er að skoða þetta,“ sagði Sverrir að lokum.