Fjárhagsáætlun Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2021 eins og hún var afgreidd við fyrri umræðu í bæjarstjórn var til umræðu á fundi framkvæmda og hafnarráðs í gær. Rekstrartekjur eru áætlaðar 413 milljónir króna og rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði verði jákvæð um 23,8 milljónir króna. Ráðið samþykkti fyrirliggjandi fjáhagsáætlun fyrir árið 2021 og vísar henni til síðari umræðu í bæjarstjórn með 3 atkvæðum. Fulltrúar D-lista sátu hjá.

Ekki góð ráðstöfun almannafjár
Fulltrúar D-lista bókuðu eftirfarandi: Fulltrúar D lista í framkvæmda og hafnarráði telja nýtt fyrirhugað stöðugildi hafnarstjóra með tilheyrandi 15 milljón króna aukningu á árlegum rekstrarkostnaði Vestmannaeyjahafnar alls ekki góða ráðstöfun almannafjár. Vandséð er að ný staða hafnarstjóra sé svar við vandamálum í rekstri hafnarinnar auk þess sem mikill samdráttur í tekjum kallar á flest önnur viðbrögð en að þenja út reksturinn.

Mikið álag á stjórnendur hafnarinnar
Því var svarað með bókun frá fulltrúum H- og E-lista. Vestmanneyjahöfn er lífæð samfélagsins bæði hvað varðar atvinnustarfsemi og sem aðalsamgönguæð. Það kemur skýrt fram í minnisblaði sem starfshópur framkvæmda- og hafnarráðs skilaði af sér að bæta þurfi skipulag og umgjörð starfsemi hafnarinnar töluvert svo vel sé. Mikið álag á stjórnendur hafnarinnar og langar og óskýrar boðleiðir valda því að stjórnun hafnarinnar er ekki eins og best verður á kosið. Skýra þurfi ábyrgðarsvið betur og gegnir hafnarstjóri þar lykilhlutverki.

Fjárhagsáætlun 2021 Hafnarsjóður – fyrri umræða.pdf