Umræður um félagslega íbúðakerfið og drög að nýjum og samþættum reglum um félagslegar íbúðir á vegum Vestmannaeyjabæjar voru meðal þess sem rætt var á fundi fjölskyldu og tómstundaráðs í vikunni. Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs fór yfir stöðu félagslega íbúðakerfisins hjá Vestmannaeyjabæ. Vestmannaeyjabær hefur yfir að ráða 17 almennar íbúðir og 41 íbúðir sem eru ætlaðar eldri borgurum (þ.a. verða 11 skilgreindar sem þjónustuíbúðir). Verið er að byggja þrjár félagslegar leiguíbúðir fyrir fatlað fólk sem og 7 þjónustuíbúðir sem taka við hlutverki þjónustuíbúðanna að Vestmannabraut 58b. Biðlisti eftir félaglagslegu húsnæði er breytilegur frá tíma til tíma. Í október voru 13 einstaklingar á biðlista eftir almennri íbúð. Margar íbúðir í almenna félagslega íbúðakerfinu eru óhentugar vegna stærðar og mikilvægt að skipta þeim út fyrir minni íbúðir. Framkvæmdastjóri lagði fram drög að samræmdum reglum um félagslegar leiguíbúðir á vegum Vestmannaeyjabæjar. Ráðið þakkar kynninguna og mun taka afstöðu til nýrra reglna um félagslegar íbúðir síðar.