Dómsmálaráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frumvarps sem lagt verður fyrir alþingi í dag sem bindur enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

“Landhelgisgæsla Íslands er ein af grunnstoðum öryggis- og almannavarna í landinu. Þörfin fyrir öfluga björgunarþjónustu er hvað brýnust á þessum tíma árs þegar dimmasta skammdegið fer í hönd. Hættulegar veðurfarslegar aðstæður geta skapast víða um land og þá ekki síst fyrir sjófarendur á miðunum í kringum landið. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki aðeins nauðsynlegar við leit og björgun á sjó og landi heldur sinna þær einnig sjúkraflugi og eru þannig einnig mikilvægur hlekkur í heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir allan almenning. Verkfall flugvirkja hefur stefnt þessu öryggi í mikla tvísýnu. Staðan er óviðunandi og ég tel ekki rétt að ein stétt hjá Landhelgisgæslunni geti haft þessi gífurlegu áhrif á öryggismál þjóðarinnar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að öðrum mikilvægum starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að fara í verkfall með vísan til almannahagsmuna.Samninganefnd ríkisins hefur boðið flugvirkjum Gæslunnar nýjan samning með sömu hækkunum og aðrir hafa fengið en ekki samþykkt eldra fyrirkomulag með tengingu við kjarasamning Icelandair. Þessar viðræður hafa nú siglt í strand og flugvirkjar hafa hafnað sáttatillögu ríkissáttasemjara um eins árs samning. Kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi. Starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar verður einfaldlega að komast í eðlilegt horf án tafar.Ég hef því lagt það til og ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi frumvarp að lögum til að stöðva verkfallið og gerðardómi verði falið að ákveða kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hafi samningar ekki tekist fyrir 4. janúar nk. Einnig verður gerðardómi ætlað að taka til meðferðar útfærslu á tengingu kjarasamnings flugvirkja við aðrar sambærilegar starfsstéttir á almennum vinnumarkaði. Allt er þetta skýrt mun nánar í greinargerð með frumvarpinu sem ég mun mæla fyrir í þinginu í dag.”