Niðurstaða samræmdra prófa í 4. og 7. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja voru til umræðu á fundi fræðsluráðs í vikunni. Skólastjóri kynnti niðurstöður samræmdra prófa í 4. og 7. bekk sem lögð voru fyrir í september sl. 4. bekkur er með 29,2 í skólaeinkunn í íslensku og 28,9 í stærðfræði. Landsmeðaltalið er 30 og árangurinn því undir því í báðum greinum. 7. bekkur var yfir landsmeðaltali í íslensku með 31,3 en undir í stærðfræði með 28,7. Þegar núverandi 7. bekkur þreytti samræmd próf í 4. bekk var hann með 30,7 í skólaeinkunn í íslensku og hækkar því örlítið milli prófa en með 33,8 í stærðfræði og lækkar því töluvert. Ráðið leggur áherslu á að greina niðurstöður og vinna að aðgerðaáætlun til að efla þá þætti sem komu ekki nógu vel út. Ráðið óskar eftir að fá kynningu á þessari aðgerðaáætlun og eftirfylgni skólans með vorinu. Það er hagur okkar allra að vinna saman að þessu verkefni.