Sjúkraliðar styrkja Styrktarsjóð Landakirkju

26. nóvember ár hvert er dagur sjúkraliða. Heitinu samkvæmt er þessi dagur notaður til að minna á störf sjúkraliða sem eru gífurlega mikilvæg ekki bara innan heilbrigðisgeirans heldur samfélagsins í heild sinni. Sjúkraliðar hér í Eyjum gleðjast yfir þessum degi eins og vera ber og hafa fagnað honum með ýmsu móti en um 40 sjúkraliðar eru starfandi í Eyjum.

En tilstand og fögnuður er öllu minna núna í ár sökum COVID-19. Af þeim sökum ákváðu sjúkraliðar hér í Eyjum að verja frekar þeim fjármunum, sem hefðu að öðrum kosti farið í að minnast dagsins, í Styrktarsjóð Landakirkju. Styrkur sjúkraliða fyrir sjóðinn hljóðar upp á 100.000kr sem kemur í góðar þarfir, sérstaklega nú í aðdraganda jóla.

Styrktarsjóður Landakirkju er hugsaður fyrir efnaminni einstaklinga og fjölskyldur sem búsett eru hér í Eyjum. Prestar Landakirkju hafa umsjón með reikningnum og er veitt úr honum í samráði við þá.

Fyrir þá sem vilja styrkja reikninginn eru hér meðfylgjandi upplýsingar:

Bnr. 0185-15-551107
Kt. 280374-4829

Landakirkja óskar sjúkraliðum innilega til hamingju með daginn. Við biðjum þeim blessunar í störfum sínum og þökkum kærlega fyrir styrkinn. Hann kemur í góðar þarfir.

„Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ Okv 3:27

X